Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:06:08 (7196)

2002-04-08 20:06:08# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:06]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi er í sjálfu sér metnaðarfull þar sem Alþingi ályktar að á næstu 11 árum skuli stefnt að fækkun alvarlegra umferðarslysa um 40% miðað við fjölda slysa árin 2000 og 2001. Í sjálfu sér er mjög mikill vandi að setja sér svona markmið. Þó að það sé góðra gjalda vert er að sumu leyti skynsamlegra að setja sér almennt markmið um að ná árangri í að tryggja aukið umferðaröryggi. Allar talnalegar ályktanir eins og þetta eru stefnumið svolítið út í bláinn. Við þekkjum nokkurra ára gamla yfirlýsingu um vímulaust Ísland árið 2000, að mig minnir, en það hefur heldur farið á hinn veginn. Að sjálfsögðu er svona ályktun samt hvatning til þess að úr slysum dragi og nokkuð ávinnist í umferðaröryggi.

Þessu vildi ég víkja til hæstv. dómsmrh., einmitt út af hinni metnaðarfullu þáltill. og að auki vegna umferðaröryggisáætlunar fyrir árin 2002--2012 sem er fylgiskjal með þáltill. Í umferðaröryggisáætluninni eru talin upp mýmörg atriði og bent á hvaða áhrif þau hafi á umferðaröryggismál. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, skjóta nokkuð skökku við --- ég hef áður vikið að því á Alþingi --- að í frv. til laga um samgönguáætlun þar sem gert er ráð fyrir að vinna langtímasamgönguáætlun er hvergi minnst á umferðaröryggismál. Það finnst mér mjög kyndugt.

Ég ber virðingu fyrir hinni miklu áherslu hæstv. ráðherra á umferðaröryggismálin, og undirtektum Alþingis vegna mikilvægis þess að vinna átak í þessum málum. Jafnframt hefur komið fram í umræðum, og öllum er það fyllilega ljóst, að það eru framkvæmdir í vegamálum og áhersla í vegagerð sem ráða mestu um hvaða árangur næst í umferðaröryggismálum. Að sjálfsögðu er hægt að bæta ýmislegt með aukinni löggæslu og eftirliti en það er í sjálfu sér ekki sú nálgun sem við viljum hafa á umferðaröryggi og umferðaröryggismál. Við viljum að umferðin geti gengið sem öruggast án lögregluafskipta. Ég hygg að við séum öll sammála um það, hv. þingmenn, að við viljum geta komist í umferðina án þess að lögreglan mæli okkur endilega.

Þá er það fyrst og fremst áhersla í tengslum við vegáætlun og framkvæmdir í vegagerð sem hefur áhrif. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort hún hafi ekki gert neina tilraun til að koma þessum áherslum inn í samgönguáætlunina. Í henni er lögð áhersla á að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla í vegaframkvæmdum en á öryggismál er ekki minnst í sjálfum textanum. Mér finnst skjóta verulega skökku við að við erum samtímis á þinginu að ræða samgönguáætlun, áætlun um samgöngumál, áherslur í samgöngumálum bæði til skemmri og lengri tíma, en ekki er minnst á öryggismál í sjálfum lagatextanum. Jafnframt erum við að ræða mjög alvarlegt mál, till. til þál. um stefnumótun um aukið umferðaröryggi og skýrslu þar að lútandi. Ég leyfi mér að ítreka þá spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún hafi ekki gert neina tilraun til að fylgja þessum málaflokki eftir í samgönguáætlun því að þar á þetta heima. Eða er takmarkað samband á milli samgrn. og dómsmrn.? Slíkt má ekki verða --- sem ég hef reyndar ekki trú á --- til þess að við vinnum að og samþykkjum samgönguáætlun sem ekki tekur tillit til mikilvægra atriða eins og öryggismála.

Ég flutti brtt. við samgönguáætlun við 2. umr. þar sem ég lagði til að taka ætti mið af umferðaröryggismálum ásamt öðrum markmiðum samgönguáætlunar. Því miður felldi meiri hluti Alþingis þá tillögu við 2. umr., taldi ekki ástæðu til að umferðaröryggismál kæmu inn í lagatextann um samgönguáætlun.

Ég skil ekki þessa nálgun, virðulegi forseti, og skora á hæstv. dómsmrh. sem ég veit að fylgir þessu máli eftir af einurð, vill gera það og hefur metnað til þess að við náum árangri í þessu, til að beita sér jafnframt fyrir því að þetta komi inn í lagatextann við 3. umr. um samgönguáætlun. Ég vek t.d. athygli á því atriði sem ræður ekki hvað minnstu um öryggismál í samgöngumálum, breikkun á einbreiðum brúm. Það ætti í rauninni að vera sérstakt forgangsverkefni í vegamálum.

Auk þess vil ég í lokin spyrja hæstv. dómsmrh. hvaða reglur gildi t.d. um lengd á flutningabílum með flutningavögnum því að mér virðist það vera orðið nokkurt vandamál á þjóðvegunum. Það eru mörg atriði sem þarna þarf að halda til haga, virðulegi forseti, og ég legg áherslu á að umferðaröryggismál ættu náttúrlega að koma inn í lagatextann um samgönguáætlun.