Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:16:53 (7198)

2002-04-08 20:16:53# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:16]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að ég ber virðingu fyrir metnaðarfullum áformum í þáltill. um að fækka slysum um 40% miðað við árin 2000--2012 á næstum tólf árum og tek alveg heils hugar undir þá ósk með hæstv. ráðherra um að það náist.

Það sem ég vek athygli á er að stór hluti af slysum og því að ná árangri í að fækka slysum tengist vegaframkvæmdum, tengist áherslunni í vegamálum, tengist því hvort við leggjum meiri áherslu á að fækka einbreiðum brúm og fleiru slíku. Þess vegna leyfi ég mér ítrekað að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort henni finnist eðlilegt að ekkert skuli vera minnst á umferðaröryggismál í lagatextanum um gerð langtímasamgönguáætlunar. Þar er hins vegar talað um forgangsröðun á notkun á fjármagni og mannafla og að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best til framkvæmdanna, en það er einmitt í gegnum samgönguáætlunina sem við leggjum áherslu og drögum áherslurnar í samgöngumálum.

Ég leyfi mér ítrekað að spyrja hæstv. ráðherra: Fyndist henni ekki eðlilegt að við gerð samgönguáætlunar væri eitt af markmiðunum einmitt á sviði umferðaröryggismála og að samgönguáætlun ætti að vinna m.a. með tilliti til að stuðla að auknu umferðaröryggi, það ætti að koma í sjálfum lagatextanum í þeirri markmiðssetningu sem er ítrekuð þar?