Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:18:54 (7199)

2002-04-08 20:18:54# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:18]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þm. að ég tel að markmiðið í umferðaröryggismálum eða til að bæta umferðaröryggi ætti að vera á sem flestum stöðum, nánast í öllum málaflokkum sem því máli tengjast.

En út af því sem hann sagði áðan vil ég vitna í blað frá Vátryggingafélagi Íslands sem m.a. var dreift með Morgunblaðinu í gær eða fyrradag þar sem er viðtal við Jón Baldursson, yfirlækni á slysa- og bráðadeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Þar segir hann, með leyfi forseta:

,,Það sem stendur upp úr rannsóknum sem aðallega hafa farið fram á vegum rannsóknarnefndar umferðarslysa er að alvarlegustu slysin stafa af einhverju af þessu þrennu: Beltisleysi er atriði númer eitt, ölvunarakstur er í öðru sæti og hraðakstur er í því þriðja.``

Það er alveg ljóst að þetta eru atriði sem þarf að taka mjög rækilega á. En ég dreg hins vegar ekki úr því sem hv. þm. bendir á, ástand vega, umhverfi, merkingar, einbreiðar brýr. Það eru mörg atriði sem koma til skoðunar í þessu máli.