Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:29:39 (7202)

2002-04-08 20:29:39# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:29]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hv. þm. tekur svona vel í þessa áætlun og er sammála henni og eins og hann sagði reyndar í fyrri ræðu sinni --- hjartanlega sammála henni. Það þykir mér gott mál.

Ég á hins vegar svolítið erfitt með að skilja hversu oft hann kemur með þessa spurningu fram í þinginu því að ég tel mig hafa svarað henni. Ég hef skýrt frá því og það kemur fram í tillögunni að skipuð verði sérstök framkvæmdanefnd eftir að þáltill. hefur verið samþykkt hér á þinginu og ég vona að það gerist sem fyrst. Sú framkvæmdanefnd mun hafa eftirlit með framkvæmd þessara mála, væntanlega með framkvæmdaáætlun og að þingmenn allra flokka komi að því máli. Það er auðvitað þannig að það eru þingmenn hér á hinu háa Alþingi sem vinna að gerð fjárlaga og samþykkja þau, ekki satt? Það eru margir sem koma að þessu máli.

Ég vil benda á að talið er sérstaklega upp í 9. gr. frv. það sem var rætt hér áðan, um breytingu á umferðarlögum, hvaða gjöld eru innheimt í sambandi við þessi mál. Þar eru talin upp gjöld fyrir skráningu ökutækja, gjöld fyrir skráningarmerki, gjöld fyrir gerðarviðurkenningu, gjöld fyrir einkamerki, umferðaröryggisgjald og önnur gjöld sem Umferðarstofnun innheimtir samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er af dómsmrh. Að lokum á að leggja, eins og verið hefur, sérstakt umferðaröryggisgjald á, en það rennur til Umferðarstofnunar, að fjárhæð 200 kr. og greiðist það við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki.

Þar að auki er það rétt að ein af þeim tillögum sem bent er á í umferðaröryggisáætluninni eða tillögu til hennar, það er liður 6, eins og hv. þm. nefndi sérstaklega, að þróun er meðal Evrópulanda að sektir vegna umferðarlagabrota renni beint eða að hluta til umferðaröryggisstarfsins. Ég tel að þetta sé athyglisverð hugmynd.