Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:30:35 (7214)

2002-04-08 21:30:35# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:30]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það segir sig sjálft að í þessu frv. er um að ræða ríkisskóla. Fjárhagsleg ábyrgð á starfsemi skólans er því á hendi ríkissjóðs. Það er alveg ljóst, eins og skilmerkilega er dregið fram í umsögn fjmrn. um fjárhag skólans, að þar hafa verið erfiðleikar sem menn þurfa að taka á. Ég held að þessi breyting geti auðveldað mönnum að taka á þeim fjárhagsvanda. Ég held að hugmyndir um að fella þenna skóla, rekstrarlega a.m.k., saman við aðra skóla muni auðvelda mönnum líka að takast á við þennan vanda því ég held að augljóst sé að kostnaðurinn við að reka fámennan skóla er meiri en að reka stærri skóla.

Það verður auðvitað viðfangsefni okkar við fjárlagagerð næsta árs að taka á þeim fjárhagsvanda sem hér er skilmerkilega gerð grein fyrir og ég hef engar efasemdir um að þeir ráðherrar sem glíma við það mál muni komast að farsælli niðurstöðu.