Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:49:24 (7218)

2002-04-08 21:49:24# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:49]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka þessar umræður sem að mestu leyti hafa verið mjög gagnlegar og að mestu leyti einnig mjög vinsamlegar þessu frv. Ég skal í eins stuttu máli og ég get fara yfir þær athugasemdir sem borist hafa, að svo miklu leyti sem ég hef svör við þeim. Einna flestar spurningar voru settar fram af hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni sem tók fyrstur til máls og spurðist fyrir um allmargar greinar frv. Raunar hafa allmargir þingmenn átt það sameiginlegt að spyrjast fyrir um mat fjmrn. á kostnaði við skólann. Skal ég víkja að því síðar.

Hér hefur verið nokkuð um það talað að leiða megi líkur að því að þegar texti þessa frv. er borin saman við lög um Kennaraháskólann, sé um að ræða einhvers konar gengisfellingu á metnaði. Það fer nú eftir því hvernig á það er litið. Ég legg áherslu á að hv. þm. lesi saman frv. til laga um Tækniháskóla Íslands og lög um háskóla. Í lögunum um háskóla er gefið ákveðið svigrúm sem er nýtt eftir því sem aðstæður krefjast hverju sinni. Hér háttar t.d. öðruvísi til um fjölda fulltrúa í háskólaráði, en svigrúm þar um er markað í lögum um háskóla. Gert er ráð fyrir því að í þessu tilfelli verði sex fulltrúar í ráðinu og þar af tveir skipaðir af menntmrh. Þetta er nokkuð misjafnt eftir skólum. Ég mundi nú ekki orða það þannig, þó menn geti haft þá skoðun, að því fleiri ráðsmenn sem sitja því meiri sé metnaðurinn. Það finnst mér ekki sjálfgefið. Hins vegar finnst mér mjög líklegt að fjöldi þeirra fulltrúa sem skipaðir eru af menntmrh. sé í beinum tengslum við það að talið er ákjósanlegt að aðilar úr atvinnulífinu væntanlega komi inn í stjórn skólans og það eru einmitt þeir sem gert er ráð fyrir að menntmrh. skipi. Þar af leiðandi finnst mér fara vel á því að þeir séu tveir í þessum skóla sem á að hafa mjög náin tengsl við atvinnulífið. Þetta getur nefndin að sjálfsögðu skoðað, en afstaða mín til málsins er þessi. Ég vil því gjarnan að nefndin skoði það, um leið og hún skoðar þessi ákvæði, hvort ekki sé ástæða til að styrkja stöðu þessa skóla sérstaklega gagnvart atvinnulífinu.

Ég tek fram að öll ákvæði í þessum lögum um skólagjöld eru fyllilega sambærileg við aðra skóla eða við lögin um háskóla. Þau eru sniðin eftir þeim og ekki er gert ráð fyrir því að nein breyting verði á þeim málum.

Hvað ákvæðin um hollvinasamtökin varðar þá tel ég að hollvinasamtök sé hugtak sem væntanlega nái yfir góðvinasamtök og tel því að það rúmi samtök eins og þau sem stofnuð hafa verið um Háskólann á Akureyri þótt orðalagið sé þannig í þessum lögum og lögum um háskóla væntanlega líka.

Ég vil taka fram að sá sem hér stendur er ekki mjög vel að sér um aðdraganda þessa máls og viðræður við önnur skólastig. Sérstakar ástæður voru fyrir því að viðræður við Margmiðlunarskólann heppnuðust ekki. Einnig ollu sérstakar ástæður því að viðræður við verkfræðideild Háskóla Íslands leiddu ekki til niðurstöðu sem var ásættanleg. En ég þykist alveg fullviss um að nefndin geti kallað þessar upplýsingar inn á borð til sín og fengið fullnægjandi upplýsingar um það hvers vegna þessar viðræður sigldu í strand. Ég get hins vegar ekki tekið undir með hv. ræðumönnum sem hér glöddust sérstaklega yfir því að ekki hefði tekist að efna til samstarfs um þennan skóla á grundvelli einkaskóla. Það hefði líka getað verið mjög forvitnileg tilraun, enda hefur sá sem hér stendur ekki haft fordóma almennt gegn einkaskólum sem mér þykir stundum bera á í þessum virðulega sal.

Einnig hefur komið fram að margir þingmenn hafa velt fyrir sér upplýsingum í mati fjmrn. á stöðu skólans og spurt hvort eigi að arfleiða skólann að halla Tækniskóla Íslands. Nú ber þessi uppsafnaði halli óneitanlega vott um ófullnægjandi aðhald í rekstri Tækniskóla Íslands. Það er alveg ljóst að skólinn hefði þurft að huga betur að rekstrarmálum sínum. Í raun er einnig ljóst að þessi uppsafnaði rekstrarhalli tengist að einhverju leyti ákvörðunum sem hafa verið teknar í skólanum og rúmast ekki innan fjárheimildar skólans. Slíkt er ekki hægt að verja. Menntmrn. getur ekki varið það. Það er ætlast til þess að hinn nýi skóli taki frá upphafi á rekstrarmálum sínum og haldi sig innan fjárheimilda. Sem menntmrh. er ég fullviss um að skólinn muni axla þá ábyrgð. Það liggur alveg ljóst fyrir að ef gætt verður aðhalds í rekstri skólans frá upphafi og starfsemi hans sniðin að fjárheimildum mun menntmrn. leita leiða og finna leiðir til þess að gera upp halla skólans án þess að það bitni á hinni nýju stofnun. Ég segi þetta til þess að það sé alveg ljóst. En ætlast er til þess að hinn nýi skóli takist á við þann vanda að halda rekstri sínum innan fjárheimilda. Ég reikna með að allir hv. þm. séu sammála því að sú kvöð hvíli almennt á ríkisstofnunum að halda sig innan fjárheimilda.

Skólinn mun fara af stað, eins og háskólar hafa raunar gert, hægt og rólega og byggja sig upp. Á það sérstaklega við um rannsóknir. Háskólinn á Akureyri byggði upp rannsóknastarf sitt í áföngum. Hann stökk ekki alskapaður inn í rannsóknarumhverfi sitt. Háskólinn í Reykjavík er að byggja upp rannsóknir með takmörkuðum fjármunum enn. En þetta er framtíðin hjá þessum skólum og verður framtíðin hjá Tækniháskóla Íslands.

Ég vek athygli á því, þannig að það fari ekki á milli mála í þessari umræðu, að í þeirri grein frv. sem fjallar um rannsóknir er um að ræða heimildarákvæði. Í ákvæðinu segir að skólanum sé: ,,... heimilt að sinna hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum ...`` Hér er með öðrum orðum um heimildarákvæði að ræða sem opnar fyrir þessa starfsemi skólans. En það verður háð samningum milli skólans og menntmrn. hvernig þessi starfsemi verður byggð upp.

Það er einmitt þetta atriði sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurðist fyrir um þegar honum fannst eitthvert metnaðarleysi í ákvæðunum um það hvernig starfsfólk skuli starfa við skólann. Í raun er það bein afleiðing þeirrar ákvörðunar að skólinn hefur ekki rannsóknarskyldu frá upphafi heldur heimild til rannsókna. Því þarf að skapa svigrúm fyrir skólann til að ráða sér starfsfólk án þess að það hafi þessar skyldur. Þetta er skýringin á þessu. En metnaður skólans frá upphafi felst í því að hann byggi sig upp skref fyrir skref sem háskóli, en heimildarákvæði nær yfir rannsóknirnar, og gert var ráð fyrir að heimildarákvæðið verði í fyllingu tímans nýtt með samningum við menntmrn. Þetta vil ég taka skýrt fram þannig að menn velkist ekkert í neinum vafa um þetta.

[22:00]

Hér hafa orðið nokkrar umræður um það hvort þennan skóla hefði átt að sameina öðrum skólum eða ekki og um meinta smæð skólans. Ég held að þar hafi gætt einhvers misskilnings. Þessi skóli verður ekki 270 manna háskóli. Þessi skóli verður 500 manna háskóli til að byrja með vegna þess að þó að tæknisviðið sé að vísu ekki mjög stórt þá eru þarna nemendur á háskólastigi. Þeir eru 500. (Gripið fram í.) Þarna erum við því ekki að tala um mjög smáan skóla og við ætlum líka að þessi skóli muni eiga nokkra vaxtarmöguleika.

Ég held að hægt sé að fullyrða að þörf hefur verið fyrir þetta nám og þörf fyrir þennan skóla. Þar af leiðandi væri það sérkennileg ráðstöfun ef menntmrh. setti fram einhverjar hugmyndir um að þvinga þennan skóla til annarra landshluta. En vegna þess að menn hafa rætt um hugsanlega samstarfsmöguleika Tækniháskóla Íslands, þ.e. ef og eftir að þetta frv. verður að lögum væru kannski hugsanlegir samstarfsmöguleikar við Háskólann á Akureyri, þykir mér rétt að geta þess að í gangi er samningur milli Tækniskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um samstarf. Að sjálfsögðu hindrar ekkert þessa skóla í að auka samstarfið og leita leiða til þess að feta sig áfram á þeirri braut að efla samstarfið í þeim tilgangi að auka hagræðinguna. En það er skilyrði fyrir því frá mínum bæjardyrum séð að báðir skólarnir sjái sér hag í þessu. Það er ekki góð forskrift á því að neyða upp á stofnanir samstarfi sem þær kæra sig ekki um. Fyrir slíku þarf að vera góður grundvöllur. Ekkert er því til fyrirstöðu í samstarfi þessara tveggja skóla, sem hefur verið gott, að þeir efli það á grundvelli samstarfssamnings sem þeirra er í millum. Ef skólarnir óska eftir slíku mun ekki verða lagst gegn því heldur þvert á móti leitað leiða til að styðja það.

Hins vegar er mikilvægt fyrir Tækniháskóla Íslands að hann finni til þeirrar ábyrgðar sem hvílir á sjálfstæðri stofnun á nákvæmlega sama hátt og það er mikilvægt fyrir Háskólann á Akureyri, og hefur alltaf verið mikilvægt, að vera sjálfstæður og finna til þeirrar ábyrgðar sem hvílir á sjálfstæðri stofnun. Í krafti þessa er þetta frv. lagt fram og lögð drög að því að Tækniháskólinn geti samkvæmt þessu frv. tekist á við þau vandamál sem hann kýs að sinna innan ramma þeirra samninga sem gerðir verða við skólann.

Ég vil einnig víkja að því að hv. þm. Einar Már Sigurðarson taldi fyrirsjáanlegt að í ákvæði til bráðabirgða væri gert ráð fyrir að skólinn yrði rektorslaus í mánuð. Þar er fulldjúpt í árinni tekið. En sagt er að ráðherra skuli skipa rektor skv. 7. gr. eigi síðar en 1. júlí þannig að þarna er verið að búa til svigrúm sem hægt er að nýta þó að ég geri ekki ráð fyrir því að það svigrúm verði nýtt.

Ég held að ég hafi komið inn á flest þau atriði sem beðið hefur verið um svör við. Ef eitthvað er mun ég reyna að bregðast við andsvörum og veita frekari svör ef þau eru tiltæk.