Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:05:02 (7219)

2002-04-08 22:05:02# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:05]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að orð hæstv. ráðherra um samstarf háskóla á Íslandi og nauðsyn þess að efla það voru eins og töluð út úr mínu hjarta. Það er einmitt þannig sem ég hugsa um þetta. Það er mjög nauðsynlegt að efla samstarf háskólanna. Það er mjög nauðsynlegt að koma á því andrúmslofti að háskólarnir sjálfir vilji taka upp samstarf og efla samstarf. Hins vegar er ekki hægt að knýja neinn til samstarfs að þessu leyti.

Ég vil sérstaklega taka fram varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um þann mikla halla sem hefur verið á rekstri Tækniskóla Íslands, að ég held að ekki sé alfarið við stjórn skólans að sakast. Ég sat í eina tíð árum saman í hv. fjárln. og það komu á hverju ári mjög vel útfærðar og vel rökstuddar tillögur til fjárlaga frá Tækniskóla Íslands. En það var aldrei litið á þær tillögur og enginn áhugi var á að fara eftir þeim og þeir fengu aldrei framlög eftir því sem þeir töldu sig þurfa. Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því hver staðan er núna.