Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:14:30 (7227)

2002-04-08 22:14:30# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:14]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. menntmrh. fyrir þau svör sem hann veitti í ræðu sinni. Þau voru flest og nær öll afar fullnægjandi og upplýsandi um málið. Ég fagna t.d. þeirri yfirlýsingu sem gengur raunverulega lengra en það sem segir í lagatextanum og tek undir með hæstv. ráðherra, að það er afar mikilvægt, sérstaklega við þennan skóla, að fulltrúar frá atvinnulífinu séu í háskólaráðinu. Ég fagna því mjög ef hæstv. ráðherra mun nýta sinn tilnefningarrétt til þess að auka tengsl skólans við atvinnulífið.

Þá er það metnaðarmálið, sem ég verð að nýta þann litla tíma sem ég hef til þess að fara í. Þegar við berum saman annars vegar frv. um Tækniháskólann og síðan lög um Kennaraháskólann kemur fram að gerðar eru mun ítarlegri kröfur til væntanlegra starfsmanna í Kennaraháskólanum en gert er ráð fyrir í frv. um Tækniháskólann. Skýringar hæstv. ráðherra eru þær að það sé vegna þess að skólinn muni vaxa skref fyrir skref og að eingöngu séu heimildarákvæði um rannsóknirnar. En ég hlýt að spyrja, herra forseti: Hefði ekki verið eðlilegra að gera fullnaðarkröfur í upphafi en láta síðan bráðabirgðaákvæði nægja um að þetta gilti ekki fyrr en að uppfylltum ákveðnum skilyrðum?