Lokafjárlög 1998

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:19:43 (7231)

2002-04-08 22:19:43# 127. lþ. 114.32 fundur 666. mál: #A lokafjárlög 1998# frv. 100/2002, 667. mál: #A lokafjárlög 1999# frv. 102/2002, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1998 sem dreift hefur verið á þskj. 1082. Frv. var lagt fyrir Alþingi á síðasta þingi en var ekki afgreitt þá og er nú endurflutt. Einnig mæli ég samhliða fyrir frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1999 á þskj. 1083. Frv. bæði eru lögð fram til staðfestingar á ríkisreikningi fyrir umrædd ár.

Framsetning á talnaefni þessara frv. er í samræmi við niðurstöðu ríkisreiknings og hefur ekki breyst frá því að frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1998 var lagt fram á síðasta þingi. Frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1999 er unnið á sama hátt. Í 1. gr. frumvarpanna er leitað heimilda til að breyta fjárveitingum vegna frávika í ríkistekjum sem áhrif hafa á fjármögnun stofnana og verkefna en í 2. gr. frumvarpanna er lögð til niðurfelling á stöðu fjárheimilda í árslok vegna verkefna sem ráðast af öðrum lögum en fjárlögum, svo sem almannatryggingum, vaxtagjöldum og lífeyrisskuldbindingum eins og nánar verður komið að.

Frumvörp til lokafjárlaga eru lögð fram í samræmi við lög nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, og eru til staðfestingar á ríkisreikningum 1998 og 1999 eins og áður er fram komið.

Samkvæmt 45. gr. fjárreiðulaga skal í lokafjárlögum leita heimilda til uppgjörs á gjöldum umfram fjárheimildir ársins og á ónotuðum fjárheimildum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal í frv. leggja fram sérstaka skrá yfir geymdar afgangsfjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimild er í lögunum til að greiða slík umframgjöld af fjárveitingum næsta árs. Einnig skal í frv. gera grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.

Í 1. gr. frumvarpanna eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna vegna frávika, og öðrum rekstrartekjum og mörkuðum tekjum miðað við fjárlög en nánari skipting er í sundurliðun 1. Er um að ræða breytingar í samræmi við niðurstöður ársins 1998 og 1999 þar sem skilað er lögboðnum ríkistekjum til þeirra verkefna sem þær eru ætlaðar eða fjárheimild lækkuð í þeim tilfellum sem tekjurnar hafa verið ofáætlaðar í fjárlögum.

Í 2. gr. er sótt um heimildir til uppgjörs frá ónotuðum fjárveitingum og umframgjöldum sem ekki flytjast á milli ára og vísa ég til nánari skiptingar í sundurliðun 2. Í sumum tilfellum eru heimildir felldar niður í árslok og er þar um nokkuð hefðbundna afgreiðslu að ræða sem lítið breytist á milli ára. Veigamikil breyting frá uppgjörsfjáraukalögum fyrri ára er þó fólgin í því að nú eru fjárlög á rekstrargrunni og er því sýnd rekstrarstaða stofnana sem ekki eru með efnahag í A-hluta ríkisreiknings, en það eru einkum sjálfseignastofnanir. Lagt er til að staða þessara stofnana miðað við fjárheimildir verði felld niður í árslok enda miðast framlög til þeirra við fjárveitingar í fjárlögum og skuldir eða inneignir þessara stofnana eru við aðila utan ríkiskerfisins.

Einnig er sótt um breytingar á fjárheimildum lögboðinna tilfærsluverkefna, svo sem almannatrygginga, og til breytinga á ríkistekjum sem m.a. eru taldar upp í 1. gr.

Í fylgiskjali er í samræmi við 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins birt yfirlit yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins.

Í 37. gr. laganna er heimild til að geyma ónýttar fjáveitingar í lok reikningsársins, og með sama hætti að draga umframgjöld fyrra árs frá fjárveitingu ársins.

Með frumvörpunum eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður ríkissjóðs umræddra ára, þ.e. 1998 og 1999, og vísa ég til greinargerðar í fjáraukalögum og í ríkisreikningi fyrir þau ár um meginatriðin í framvindu ríkisfjármála þessi ár og um helstu frávik á tekjum og útgjöldum. Þá hefur Ríkisendurskoðun einnig lagt fyrir Alþingi skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings 1998 og 1999 og um hana hefur verið fjallað í fjárln.

Herra forseti. Hér er um að ræða fyrstu lokafjárlögin sem koma til afgreiðslu Alþingis á grundvelli nýrra fjárreiðulaga. Af óviðráðanlegum ástæðum tæknilegs eðlis hefur orðið dráttur á framlagningu og afgreiðslu þessara mála. Tel ég ástæðu til að geta þess hér um leið og beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur. Er þess að vænta að unnt verði að leggja frumvörp til lokafjárlaga fyrir árin 2000 og 2001 fram á Alþingi þegar á næsta hausti og ætti vinnsla og afgreiðsla þessara mála þar með að verða komin í fastar skorður.

Ég hef, herra forseti, aðeins farið almennum orðum um frumvörpin og hlutverk þeirra í tengslum við lög um fjárreiður ríkisins. Ég tel ekki ástæðu til að tíunda einstaka liði í frumvörpunum sem varða uppgjör samkvæmt fyrirliggjandi reikningum, en legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárln. þingsins.