Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:34:06 (7236)

2002-04-09 10:34:06# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:34]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér finnst athugasemd hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fullkomlega réttmæt. Frv. sem ríkisstjórnin er að koma á dagskrá er ákaflega seint fram komið. Það er bersýnilegt að ráðherrar hafa velkst með þetta mál sín á milli og auðvitað hefði átt að koma með það fram miklu fyrr. Það er auðvitað þeirra vandamál, herra forseti.

Málefni Þjóðhagsstofnunar hafa verið ákaflega umdeild og það er óhætt að segja að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í því máli eru ekki verð eftirbreytni. Þegar maður skoðar hins vegar frv. sem nú á að leggja fram og ræða í dag er ljóst að margt bendir til þess að kostnaður við þessar breytingar verði jafnvel ívið meiri en rekstrarkostnaðurinn núna. Það er alveg ljóst að þessar breytingar munu líka daga úr möguleikum okkar þingmanna á að fá upplýsingar frá hlutlausum aðila, ekki síst okkar í stjórnarandstöðunni. Þar af leiðandi, herra forseti, hlýtur einn kosturinn í stöðunni að vera að fara þá leið sem lögð er til í þáltill. sem hv. þm. nefndi áðan, þ.e. að Þjóðhagsstofnun verði gerð að einni af undirstofnunum Alþingis.

Mér finnst mjög óeðlilegt að við ræðum frv. þar sem vélað er um framtíð Þjóðhagsstofnunar án þess að samhliða eða á undan sé rædd sú tillaga sem hv. þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram í formi þáltill. Ég tel að það sé kostur sem þingheimur allur hljóti að skoða mjög grandgæfilega. Þess vegna tek ég undir kröfu hv. þm. og formanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að sú tillaga verði jafnhliða tekin á dagskrá.