Dagskrá fundarins

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 10:47:26 (7244)

2002-04-09 10:47:26# 127. lþ. 115.91 fundur 488#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[10:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þau tíðindi urðu að hv. formaður utanrmn. fékk skyndilega málið varðandi málefni Palestínu. Hér höfum við rætt það fram og aftur í þingsölum og alltaf hefur Samfylkingin lagt áherslu á að sú tillaga, sem við höfum lagt fram um málefni Palestínu og virðist njóta breiðs stuðnings í þinginu og allar götur upp í ríkisstjórnina sjálfa, verði tekið fyrir í utanrmn. Hið háa Alþingi er nefnilega að senda ákveðin skilaboð með því að láta þá tillögu liggja óafgreidda. Ég segi það fullum fetum, herra forseti, að það er til skammar, til vansæmdar, hvernig Sjálfstfl. hefur legið á þeirri tillögu. Það er breiður stuðningur allra flokka nema Sjálfstfl. við þetta mál. (Gripið fram í.) Ég bendi hv. formanni þingflokks Sjálfstfl. á að ég hef orðið að þessu sinni.

Að öðru leyti, herra forseti, fagna ég því að mér virðist sem loksins sé að rofa til í huga hv. formanns þingflokks sjálfstæðismanna og hún muni beita sér fyrir því að málið verði loksins tekið fyrir.

Að öðru leyti vil ég hrósa happi yfir því að hv. þm. er hér í salnum. Hún er dugleg við að segja okkur til um hvernig eigi að haga þingstörfum. Ég vil auðvitað þakka hv. þm. fyrir að hafa bent okkur í stjórnarandstöðunni á það að þegar frv. ríkisstjórnar um Þjóðhagsstofnun kemur til umræðu þá megum við og getum lagt fram brtt. við það frv. Ég gleðst sérstaklega yfir þessu örlæti af hálfu Sjálfstfl. að ætla að leyfa okkur það.

Herra forseti. Hér er verið að tala um fagleg vinnubrögð. Það kemur engum á óvart að ríkisstjórnin vilji ræða þetta mál. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segir munum við í stjórnarandstöðunni örugglega leggja faglegan metnað í að vinna það vel. En það væri e.t.v. hægt að ná betri samstöðu um vinnubrögðin, ef ekki sjálfa niðurstöðuna, ef allar tillögurnar sem fram hafa komið væru ræddar og kæmust á dagskrá. Það liggur fyrir tillaga frá stjórnarandstöðunni, frá Vinstri grænum, sem er allrar athygli verð og maður hlýtur að spyrja sig: Hvers vegna er hún ekki á dagskrá?