Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:04:13 (7249)

2002-04-09 11:04:13# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel að hér sé farið út á nýja braut í skilgreiningu þingskapa og gengið gegn ítrekuðum og staðfestum fordæmum þar sem önnur túlkun hefur verið uppi höfð. Er skemmst að minnast þess þegar stjórnarandstaðan var harkalega gagnrýnd, m.a. af hæstv. forsrh., Víetnamfaranum, fyrir að stöðva að frv. til laga um bráðabirgðalög á sjómenn eða lög á sjómenn kæmust á dagskrá áður en tilskilinn tveggja nátta frestur væri liðinn. Ég hygg að hv. þingmenn muni vel þá hörðu sennu sem hér varð einmitt af því tilefni, og þá var nákvæmlega þetta ákvæði túlkað á gagnstæðan hátt. Það er ljóst að varðandi útbýtingu eftir 1. apríl er sérstakt ákvæði um að einfaldur meiri hluti nægi en gagnvart öðrum frávikum frá þingsköpum þessum sem hér eiga við hefur ævinlega verið litið svo á að aukinn meiri hluta þurfi. Ég hvet hæstv. forseta í allri vinsemd til að taka sér örlítinn tíma áður en hann lýsir úrslitum atkvæðagreiðslunnar, gera hlé á fundinum, fara yfir málið og skoða fordæmi. Þá veit ég hver niðurstaðan verður því að það er algerlega óvefengjanlegt að í sögunni er það geymt að þetta hefur ævinlega verið túlkað með gagnstæðum hætti við það sem forseti hafði uppi áðan.