Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:19:56 (7262)

2002-04-09 11:19:56# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:19]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tel þessa fundarstjórn hæstv. forseta alveg forkastanlega. Auðvitað hefði, ef til stóð að breyta þeirri hefðarhelguðu túlkun sem verið hefur á þessu ákvæði, átt að fara vandlega yfir það mál í forsn. í samráði við formenn þingflokka. Það hefði átt að fara í lögskýringargögn og hefðu allir átt að hafa jafna aðstöðu til að setja sig inn í forsendur málsins. Ég spyr: Hefur það verið gert? Hefur verið farið yfir öll lögskýringargögn í þessu máli, m.a. hvernig þetta ákvæði var hugsað á sínum tíma þegar það kom inn í þingsköpin?

Þetta er heldur ekki bara spurning um lestur, herra forseti, og máltilfinningu virðulegs forseta. Þetta mál hefur efnislegt innihald. Tveggja nátta reglan er ekki út í loftið. Hún er til þess að tryggja þingmönnum eðlilegan undirbúningstíma þar sem ekki sé hægt að ætlast til þess að þeim sé skellt í umræður um flókin eða umdeild mál nánast fyrirvaralaust. Það verður að horfa til efnisatriða við lögskýringu í þessu sambandi, herra forseti. Það verður að horfa til sanngirnisreglna og meðalhófsreglna. Stenst þessi túlkun hæstv. forseta meðalhófsreglu í stjórnsýslu? Nei. Það er alveg augljóst að hún gengur í þá átt að taka af mönnum þann rétt sem þeir hafa í þessum efnum. Hún er ef svo má að orði komast íþyngjandi gagnvart þingmönnum, starfsskilyrðum þeirra og aðstæðum hér. Það er því alveg fráleitt, herra forseti, að ætla að afgreiða þetta mál sisvona og án þess að mönnum gefist kostur á að ræða það og tefla fram sínum rökum. Það er undarlegt að hæstv. forseti bregðist í engu við, hvorki beiðnum um að þetta mál sé sett í samhengi við eldri fordæmi né óskum um að nú verði gert hlé á þessum fundi og þessu ekki fram haldið með sama hætti. Hér er forseti að mínu mati, mér þykir leitt að þurfa að segja það, að beita valdi sínu með algerlega óviðeigandi hætti.

Hvað segja aðrir nefndarmenn í forsn. þingsins um þetta mál? Hafa þeir haft aðstöðu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við virðulegan forseta o.s.frv.? Ég held að hæstv. forseti hljóti að átta sig á því sem þingreyndur maður að hér er um svo afdrifaríka og mikilvæga túlkun á vandasömum lagaákvæðum að ræða, sem hafa mótað leikreglur stjórnar og stjórnarandstöðu á þessum vettvangi um áratuga skeið, að það er ekki hægt að gera þetta svona. Það nær engri átt, herra forseti. Ýmislegt er hægt að bjóða okkur upp á í þessum samskiptum en ekki þetta.

Ég mótmæli harðlega fyrir hönd þingsins, fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, þingræðisins og þeirra lögbundnu og hefðarhelguðu samskiptareglna sem hér hafa vigðengist, að svona sé staðið að málum. Það er alger óhæfa, herra forseti.