Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 12:00:46 (7274)

2002-04-09 12:00:46# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[12:00]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Í frv. er lagt til að í stað núgildandi X. kafla laganna komi nýr X. kafli er hafi fyrirsögnina Varasjóður húsnæðismála. Þegar lögin um húsnæðismál voru samþykkt á þingi árið 1998 vannst ekki tími til að ganga frá leiguíbúðaþættinum og það hefur verið í vinnslu síðan. Sveitarfélög víða um land hafa átt í verulegum erfiðleikum vegna íbúða sem þau hafa orðið að leysa til sín samkvæmt lögum. Unnið hefur verið að lausn þessa vanda.

7. desember árið 2000 skipaði ég nefnd sem í voru Ingi Valur Jóhannsson, deildarstjóri í félmrn. sem var formaður nefndarinnar, Guðmundur Bjarnason, framkvæmdarstjóri Íbúðalánasjóðs, Gunnlaugur Júlíusson, deildarstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Hallgrímur Guðmundsson, deildarstjóri í fjmrn., Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í félmrn., og Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Óskar Páll Óskarsson, lögfræðingur í félmrn., starfaði með nefndinni.

Nefndin skilaði áliti fyrir nokkrum dögum og frv. sem hér liggur fyrir er byggt á áliti nefndarinnar. Jafnframt var gert samkomulag milli mín og fjmrh. annars vegar fyrir hönd ríkissjóðs og forsvarsmanna Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og Þórðar Skúlasonar, hins vegar. Þetta samkomulag er dags. 4. apríl og frv. byggist líka á því samkomulagi.

Í stuttu máli sagt er efni frv. það að myndaður skuli allsterkur sjóður til að leysa umræddan vanda. Við hugsum okkur að hann verði leystur á næstu fimm árum. Í þennan sjóð rennur varasjóður viðbótarlána sem er í eigu sveitarfélaganna, Tryggingarsjóður vegna byggingargalla sem líka er í eigu sveitarfélaganna, sjóðurinn fái framlag úr jöfnunarsjóði og auk þess framlag frá ríkinu, þ.e. 60 millj. á ári næstu fimm ár.

Sjóðurinn hefur ferns konar hlutverk. Hann stendur að veði fyrir viðbótarlánunum eins og áður, hann stendur til tryggingar byggingargöllum eins og áður og síðan hefur hann það hlutverk að aðstoða sveitarfélögin við að selja innleystar íbúðir sem sveitarfélögin vilja ekki reka sem leiguíbúðir og í fjórða lagi að aðstoða sveitarfélögin við að reka leiguíbúðir þar sem leigufjárhæð dugir ekki til þess að standa undir rekstri íbúðanna. Þar kann að vera um að ræða offramboð á húsnæði í viðkomandi sveitarfélagi þannig að sveitarfélögin sitji uppi með auðar íbúðir.

Í frv. eru Íbúðalánasjóði veittar heimildir til að afskrifa lán allt að 40 millj. á ári á átakstímanum gegn jafnhárri afskrift frá viðkomandi sveitarfélagi til þess að taka úr notkun íbúðir sem eru það illa farnar að ekki borgar sig að gera við þær. Sjóðurinn kemur til með að lúta stjórn sérstakrar ráðgjafarnefndar þar sem sveitarfélögin eiga þrjá fulltrúa, fjmrn. eitt og félmrh. skipar formann ráðgjafarnefndarinnar.

Reiknað er með að ráðgjafarnefndin forgangsraði og reglugerðarheimildir fylgja að sjálfsögðu til frekari útfærslu.

Þar að auki er einstaklingum sem búa í félagslegu húsnæði veitt heimild til þess að ráðstafa húsnæði sínu að eigin vild, þ.e. fallið er frá kaupskyldunni í þeim tilfellum þegar viðkomandi óskar eftir því. Ekki er verið að taka rétt af neinum en verið er að rýmka rétt einstaklinga í allmörgum sveitarfélögum, þ.e. ef markaðsverð íbúðar er lægra en uppreiknað verð húsnæðisnefndar, þá er það hagur einstaklingsins að láta sveitarfélagið innleysa íbúðina, en ef markaðsverðið er hærra en uppreiknað verð húsnæðisnefndar, eins og er t.d. á höfuðborgarsvæðinu, þá er það verulegur hagur einstaklingsins að fallið sé frá kaupskyldunni. Kaupskyldan átti við mikil rök að styðjast og það voru sterk rök sem hnigu að því að halda í hana. Þetta voru upphaflega félagslegir peningar sem þarna voru á ferðinni, þ.e. verið var að aðstoða fólk við að koma sér upp þaki yfir höfuðið með mjög hagstæðum lánum og niðurgreiddum vöxtum og eðlilegt að sú hugsun væri ráðandi að þeir peningar færu þá ekki út úr kerfinu og þau réttindi eða skyldur fyrntust á ákveðnu árabili.

Nú hafa aðstæður fólks breyst á tímabilinu. Þetta er orðið mjög óvinsælt. Fólk hefur talið sig vera fanga í íbúðunum. Fjölskyldur hafa stækkað, ung hjón sem keyptu sér íbúð í félagslega kerfinu fyrir 10 eða 12 árum, geta verið búin að eignast nokkur börn og íbúðin orðin of lítil og þá eru þau í vandræðum að komast úr íbúðinni nema fá fyrir hana tiltölulega lágt verð. Á hinn bóginn var hagnaður af sölu þessara íbúða hluti af fjármögnun varasjóðs viðbótarlána. Varasjóður viðbótarlána vann mál fyrir Hæstarétti gegn Hafnarfjarðarbæ sem ekki vildi nýta kaupskyldu en þurfti að gera það samkvæmt hæstaréttardómnum.

Þá brá svo við að mjög dró úr því að fólk hreyfði sig úr félagslegum íbúðum þannig að þær tekjur sem þarna fengust af voru sýnd veiði en ekki gefin. Fólk veigraði sér við því að hverfa úr íbúðunum og sat þar bara sem fastast og lét tímann líða þangað til kaupskyldan væri fyrnd.

Mér er það ljóst, herra forseti, að frv. er allt of seint fram komið og ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að mæla fyrir því. Mér er það mjög mikið áhugamál að frv. nái fram að ganga fyrir þinglok. Geysimikil vinna hefur verið lögð í undirbúning þessa verkefnis og miklar samningaviðræður sem farið hafa fram. Samkomulag hefur tekist milli þeirra aðila sem að þessu þurftu að koma, gott samkomulag um skynsamlegt plan. Hér er verið að merkja til þessa verkefnis 1.100 millj. og það er mat þeirra sem yfir þessu hafa setið að það muni duga til þess að leysa vanda sveitarfélaganna á landsvísu. Sveitarfélögin eru misjafnlega sett, misjafnlega stödd en með þessari aðferð telur nefndin að mögulegt sé að vinna sig út úr þeim vanda.

Þess má einnig geta að í sambandi við söluna á Orkubúi Vestfjarða var ákveðinn hluti af söluverðinu settur á biðreikning á nafni hvers sveitarfélags sem væri til ráðstöfunar ef til þess þyrfti að grípa til að leysa vanda í félagslega kerfinu. Nú verða þeir peningar lausir þegar þetta nær fram að ganga og þurfa menn ekki að deila um það lengur eða halda því fram að Orkubú Vestfjarða hafi verið selt til þess að leysa vandann í félagslega kerfinu.

Ég vonast eftir því að þegar þessari umræðu lýkur, sem ég reikna með að verði markviss og þurfi ekki að taka mjög langan tíma því að það líður á þingtímann, þá verði málið sent til athugunar í hv. félmn. og ég treysti því að hv. félmn. reyni að afgreiða málið fyrir þinglokin því hér er um mikið hagsmunamál margra að ræða, bæði íbúa í félagslega kerfinu og ekki síður sveitarfélaga vítt um land.