Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 12:15:52 (7276)

2002-04-09 12:15:52# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[12:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Því miður hef ég ekki nógu nákvæm svör við spurningum hv. þm., hvorugri spurningunni. Við ætluðum ráðgjafarnefndinni að fjalla um hvað telst ,,lengri tími``. Í mínum huga er lengri tími a.m.k. missiri, kannski ár eða jafnvel meira. Ég tel að þó að íbúð sé yfirgefin og standi auð í fáa mánuði sé það ekki tilefni til að tala um lengri tíma.

Varðandi hitt atriðið, hve margar íbúðir standa auðar, hef ég ekki svör á takteinum heldur. Það eru þó nokkrir tugir íbúða sem standa auðir. Þær eru nokkuð dreifðar um landið. Ég veit að það hefur verið verulegt vandamál í Bolungarvík, í Vesturbyggð, á Raufarhöfn, og fleiri staði mætti telja. Það er bæði fyrir austan og vestan og reyndar fyrir norðan líka sem íbúðir hafa staðið auðar. Enn fremur hafa verið vandræði í félagslega kerfinu í Vestmannaeyjum. Þar hafa verið vandamál, og jafnvel á Akranesi.