Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 13:30:47 (7280)

2002-04-09 13:30:47# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[13:30]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við höldum áfram umræðu um frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Eins og komið hefur fram í umræðunni eru lagðar til breytingar á X. kafla, sem snýr að varasjóði viðbótarlána sem ætlað er að breyta í varasjóð húsnæðismála, eins og frv. liggur hér fyrir.

Hér er reynt að bregðast við ýmsum vanda sem komið hefur upp í félagslega húsnæðiskerfinu, sérstaklega eftir að eldra félagslega húsnæðiskerfinu var lokað 1998. Ég verð að taka undir gagnrýnina sem sett hefur verið fram við þessa umræðu á að hér sé seint komið til og lítið gert. Með þessu er ætlunin að bregðast við ágöllum sem urðu til við breytingarnar, við það að loka gamla kerfinu. Gert er ráð fyrir því að þessi varasjóður húsnæðismála komi til hjálpar þeim sveitarfélögum sem hafa verið í fjárhagsvanda vegna félagslegra íbúða sem þau hafa ekki getað losa sig við.

Herra forseti. Það kom fram í andsvari í upphafi umræðunnar að um væri að ræða 174 íbúðir, af 11--12 þúsund íbúðum í félagslega kerfinu. Þessum sjóði er ætlað að koma til aðstoðar í þessum ákveðnu tilvikum og er talið að aðallega þurfi þrjú sveitarfélög slíka aðstoð, þ.e. Bolungarvík, Vesturbyggð og Vestmannaeyjar. Þetta eru þannig sértæk úrræði.

Sömuleiðis er verið að leysa vanda einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum í fjölmiðlum standa á þriðja þúsund Reykvíkinga frammi fyrir því að hafa nánast verið í átthagafjötrum eða prísund. Þeir hafa ekki getað skipt um húsnæði. Þeir hafa ekki getað losnað út úr þessu kerfi eða fært sig til innan kerfisins eins og var. Það hefur verið tekið fyrir slíkt. Þegar fjölskylda stækkaði gat fólk t.d. ekki fært sig til. Það er því verið að leysa vanda sem hefði þurft að vera búið að leysa fyrir löngu.

Þessar fjölskyldur, á þriðja þúsund í Reykjavík, voru í þeirri stöðu að þær þurftu að skila íbúðum sínum til borgarinnar á uppreiknuðu verði. Talið er að þar hafi munað allt að 3 millj. kr. frá markaðsverði íbúðar. Borgin keypti þessar íbúðir síðan á lágmarksverði og eins og allir sjá var þetta náttúrlega ófremdarástand sem skapast hafði.

Vissulega er hér verið að reyna að leysa vanda sem er mjög brýnn. En við að lesa þetta frv. í gegn vakna auðvitað ýmsar spurningar og er full ástæða til þess, þegar félmn. fær það til umfjöllunar, að hún skoði ýmsa þætti þessa máls. Þó svo þetta þingmál hafi verið unnið í samstarfi við fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga er engu að síður ýmislegt sem þyrfti að fást upplýst. Ég velti fyrir mér hvort sveitarfélögin hafi ekki farið fram á meiri framlög frá ríkinu en hér er gert ráð fyrir til að leysa þennan vanda.

Hér er gert ráð fyrir 60 millj. á ári í fimm ár. Aftur á móti er sveitarfélögunum ætlað að borga 600 millj. kr. og Íbúðalánasjóði 200 millj. kr. Ég velti fyrir mér, herra forseti: Fram á hvað fóru sveitarfélögin í þessari umræðu? Hversu hárra greiðslna óskuðu þau? Síðan velti ég einnig fyrir mér hvernig sú tala fékkst sem hér er til umfjöllunar, þ.e. þær upphæðir sem fjallað er um í þessu máli. Hvaðan koma þessar upphæðir?

Auðvitað er einnig full ástæða til að fá svar við því sem fram kom í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fyrr í umræðunni: Þar sem gert er ráð fyrir að ríkið leggi fram 60 millj. kr. á ári í fimm ár, var ekki gert ráð fyrir því að ríkið setti í afskriftasjóð 50 millj. kr. á ári? Er hér bara verið að bæta við 10 millj.?

Þá vakna auðvitað fleiri spurningar. Hversu oft hafa þessar 50 millj. kr. verið greiddar? Hvert hafa þær farið og hverjir hafa fengið þessar greiðslur? Þetta eru spurningar sem full ástæða væri til að fá svar við við þessa umfjöllun. Hvernig var staðið að úthlutunum úr þessum 50 millj. kr. afskriftasjóði? Þetta er auðvitað nokkuð sem þarf að fá upp á borðið. Ég vil segja að mér finnst frv. seint á ferðinni og lítið að gert. Okkur er hér stór vandi á höndum.

Ég hefði talið fulla ástæðu til að félmn. skoðaði tillögur sem liggja fyrir nefndinni um húsnæðismál. Það liggja bæði fyrir tillögur um leiguíbúðir og ýmsar aðrar tillögur, m.a. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, í félmn. sem full ástæða er að skoða í þessu samhengi.

Auk þessa vaknar spurningin um hvort dregið hafi úr framboði íbúða á leigumarkaði, eins og spurt hefur verið um. Ég verð að segja að ég hef ekki verið sérfræðingur í húsnæðismálum en þegar maður fer að setja sig inn í þessi mál kemur manni náttúrlega ýmislegt á óvart. Í frétt í Morgunblaðinu í morgun kemur m.a. fram að frá árinu 1999 hafi engar félagslegar íbúðir bæst við í félagslega kerfinu. Það finnst mér umhugsunarefni, sérstaklega vegna þess hvernig ástandið er, m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu, í húsnæðismálum.

Herra forseti. Ég á sæti í félmn. sem mun fá þetta mál til umfjöllunar og get kallað eftir frekari upplýsingum í umfjöllun þar. En ég vonast til að hæstv. ráðherra svari þessum spurningum, þ.e. í sambandi við afskriftasjóðinn og greiðslurnar þangað og hvort það sé virkilega svo að ríkið ætli að bæta við 10 millj. kr. á ári til að leysa þennan vanda miðað við þær 50 millj. kr. greiðslur sem fyrir voru. Einnig spyr ég hvort varpa eigi nánast öllum, eða a.m.k. meiri hluta kostnaðarins, þ.e. 600 millj. yfir á sveitarfélögin, ríkið taki á sig 300 millj. og síðan Íbúðalánasjóðurinn 200 millj. kr. Ég vona að hæstv. félmrh. svari þessum spurningum síðar í umræðunni.