Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 14:20:59 (7283)

2002-04-09 14:20:59# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, KPál
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[14:20]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. um leiðir til að leysa vanda sveitarfélaganna sem hafa staðið frammi fyrir miklum vanda út af félagslegu húsnæði. Ég held að óhætt sé að fagna því að hæstv. félmrh. skuli leggja þetta frv. fram. Menn hafa verið lengi að smíða frv. eða koma saman tillögum til þess að sveitarfélögin nái að sjá fram úr þessum vanda sem þau hafa mörg hver verið að kikna undan á síðustu árum. Og þau hafa kallað eftir lausnum. Að sjálfsögðu er mjög flókið mál að gera svona samkomulag þar sem báðir aðilar eru sæmilega sáttir við hvernig lausnin verður. Ég held að óhætt sé að segja að hér hafi náðst samkomulag milli hæstv. félmrh. og ríkisstjórnar og sveitarfélaganna í landinu og það er afskaplega mikilvægt. Sveitarfélögin ganga að þessu samkomulagi. Þetta er ekki einleikur ríkisins. Mér finnst einhvern veginn að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræði málið eins og hér sé um einhverja nauðgun upp á sveitarfélögin að ræða. Sveitarfélögin hafa samþykkt þetta og þau eru sátt við þessa niðurstöðu.

Auðvitað hafa sveitarfélögin viðurkennt upp að vissu marki að ýmislegt fór úrskeiðis á undanförnum árum í uppbyggingu á félagslegu húsnæði vegna gylliboða sem komu frá ráðuneytum hér á árum áður. Sveitarfélög fóru út í að byggja félagslegar íbúðir sem var í raun ekki nauðsynlegt alls staðar og þegar upp var staðið ekki heldur rekstrargrundvöllur fyrir. Þessi vandamál hafa síðan hrannast upp. Við getum sagt að það hafi svo verið verkefni þeirra félagsmálaráðherra sem á eftir komu að reyna að leysa þetta. (JóhS: Eru mikil vandamál á Reykjanesi?) Sem betur fer eru misjafnlega mikil vandamál hjá sveitarfélögunum. Ég get upplýst hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem grípur hér fram í, að í Njarðvík var stefnan t.d. sú að byggja lítið sem ekkert félagslegt húsnæði, taka ekki þeim boðum sem höfðu komið um sífellt aukin félagsleg úrræði á byggingarmarkaðnum. Markaðurinn sjálfur var látinn ráða því hvernig þetta mundi þróast. Fólk byggði sínar eigin íbúðir að mestu leyti. Félagslegt húsnæði á Suðurnesjum var því lítið í mörgum sveitarfélögum, mismunandi mikið að sjálfsögðu. En auðvitað er ekki saman að jafna því svæði og t.d. Vestfjörðum sem hafa verið mjög illa leiknir í þessum málum.

Það er ekkert launungarmál og hefur oft komið fram í þessum þingsal að mörg sveitarfélög fóru út í byggingar á félagslegu húsnæði til að halda uppi atvinnu og byggingariðnaðinum á svæðinu. Það var gert með þegjandi samkomulagi við Húsnæðisstofnun og ráðherra á þeim tíma. Auðvitað fóru sveitarfélögin í þetta vegna þess að þau trúðu því að hægt væri að ná upp nýrri sveiflu, að hægt væri á ný að stuðla að íbúafjölgun eins og var t.d. á áttunda áratugnum, að menn mundu ná því upp með því að hafa íbúðir til reiðu af ýmsum gerðum og stærðum og þær mundu síðan fyllast. Slík áhætta hefur svo sem verið tekin. Við þekkjum fullt af dæmum héðan af höfuðborgarsvæðinu þar sem tekin hefur verið áhætta með því að búa land undir byggð sem hefur beðið jafnvel árum saman. Síðan hefur allt í einu komið tækifæri, allt í einu komið bylgja og þetta land hefur fyllst af húsnæði á örskömmum tíma. Það þekkjum við. En þessi sveifla náði aldrei út á land. Þess vegna sitja sveitarfélögin uppi með þessi vandamál. Það er verið að leysa þau eins og kemur fram í frv. og ég held að sá háttur sé góður.

Einnig má geta þess að þetta eru ekki einu úrræðin sem gripið hefur verið til til lausnar þessu vandamáli. Þegar er búið að afgreiða til Vesturbyggðar í gegnum Íbúðalánasjóð 48 milljónir vegna félagslegs húsnæðis. Afgreiddar voru 22 milljónir vegna vandamála í Reykhólahreppi. Hvort aðrar lausnir verða fyrir þessara aðila umfram það sem hér er verið að ræða um á eftir að koma í ljós.

Ef við lítum svo á hvaða aðferðum var beitt við að aðstoða fólk við að eignast sitt eigið húsnæði eftir að félagslega íbúðakerfinu var lagt virðist mér að þetta viðbótarlánaafyrirkomulag hafi reynst vel. Ég heyri ekki kvartað yfir 90% lánum, þ.e. húsnæðislánin plús viðbótarlánin. Alveg gríðarlegur hópur fólks er að fá viðbótarlán. Þetta gengur mjög fljótt fyrir sig. Aldrei stendur á því að fólk fái þessar úthlutanir sem um er beðið. Tíminn t.d. sem fer í að bíða eftir viðbótarláni er kannski tvær vikur og rúmlega það í einstaka tilfellum. (JóhS: Hverjir eru vextirnir á þeim?) Vextirnir eru bara venjulegir. Þeir eru 5,7% og vextirnir af öðrum lánum Íbúðalánasjóðs eru 5,1%. Þetta eru því mjög viðráðanlegir vextir. Þetta eru hagstæðustu vextir sem menn geta fengið til íbúðakaupa í dag. Fólk sem er að kaupa sér húsnæði upp á 10 millj. borgar 50--60 þús. kr. á mánuði í afborganir og vexti af þessum íbúðum. Ég geri ekki ráð fyrir því að hægt sé að fá það öllu ódýrara á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held að ekki sé hægt að segja að þetta kerfi hafi skapað vandamál. Þetta kerfi hefur þvert á móti leyst mörg vandamál sem voru í pípunum vegna þess að sífellt var verið að úthluta eftir á inn í félagsíbúðakerfið. Það var samkvæmt gamla laginu. Nú þarf ekki að bíða. Nú þurfa menn ekki að vera í biðröðum, á listum hjá félagsmálastofnunum, íbúðalánanefndum eða húsnæðisnefndum sveitarfélaga eftir því að fá inni í félagslegu húsnæði. Ég er ekki alveg viss um að hv. þm. Samfylkingarinnar sem hér hafa talað nokkuð digurbarkalega um þetta og eins hv. þm. Vinstri grænna, hafi skoðað hvernig þetta hefur þróast. Þeir eru fyrst og fremst í gamla farinu.

Ein aðalósk sveitarfélaganna síðustu ár hefur verið sú að losna undan kaupskyldunni. Í þessu frv. er verið að losa sveitarfélögin undan kaupskyldunni. Það er náttúrlega ekkert lítið mál fyrir þau sveitarfélög þar sem mest er af þessum íbúðum að losna undan þessu oki.

Ég held því þegar litið er á plúsa og mínusa í þessu máli að sveitarfélögin geti verið ánægð. Þó að hægt sé að segja að þau leggi ýmislegt til með þessu frv. eru þau samt að fá úrlausnir sem þau hafa sóst eftir í langan tíma. Þess vegna fagna ég því að félmrh. hefur lagt frv. fram í þessari mynd.