Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 14:30:38 (7284)

2002-04-09 14:30:38# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[14:30]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er stundum gaman að þessari umræðu. Ég efast um að sá hv. þm. sem hér talaði hafi hlustað á ræður okkar úr Samfylkingunni. Ég efast um að félmrh. hafi heyrt mikið jákvæðari ræður um frumvarp sem hann hefur flutt í sambandi við húsnæðismálin en hann hefur heyrt frá okkur í dag. Ég ætla líka að nefna það að til er fólk sem heldur því fram að það sé á móti Tryggingastofnun af því að til sé fólk sem svindlar á henni og nær sér í tryggingabætur eða hvað það nú er sem fólk heldur fram. Ég veit ekki hversu oft ég hef talað um að það sé dapurt ef það er látið bitna á góðu velferðarkerfi að fólk finnur sér smugur til að svindla á því. Og mér varð hugsað til þess þegar þingmaðurinn var að lýsa því að kerfið hefði verið notað til atvinnulífsins en ekki fyrir fólkið. Ég þekki það vel, mjög vel, vegna þess að sama sveitarfélag hafði fyrir stuttu oft beðið um undanþágur varðandi úthlutanir, sótti samt um aftur og við því var brugðist.

Ég minnist þess líka þegar hv. þm. var bæjarstjóri í Ólafsvík. Þá átti hann umtalsverð samtöl við mig, þá aðstoðarmann félmrh., og fannst að þau lög sem við værum að setja um kaupleiguíbúðir yrðu lyftistöng fyrir landsbyggðina, einmitt vegna þess að sveitarfélaginu væri gert mögulegt að byggja upp húsnæði og fólki gert kleift að leigja fyrst og kaupa síðar ef það settist að. Því vil ég segja að ég vona, úr því að búið er að umbylta kerfinu með þessum hætti sem gert hefur verið, að framtíðin eigi ekki eftir að leiða í ljós umtalsverða erfiðleika. Það veit hvorki þingmaðurinn né ég. En það er alveg ljóst að það kerfi sem hefur verið við lýði í 70 ár hefur lyft grettistaki fyrir fjölskyldur í þessu landi.