Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 14:40:46 (7289)

2002-04-09 14:40:46# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að þingmenn Samfylkingarinnar eru afskaplega viðkvæmir fyrir þessu máli. Ég hlustaði á hv. þm. Samfylkingarinnar, Jóhönnu Sigurðardóttur, og ég tók afskaplega vel eftir því sem hún sagði um þetta mál. Mér heyrðist hún einmitt tala um hlutina á nákvæmlega sama hátt og mér hefur heyrst hún tala á undanförnum árum. Ég segi ekki að aðrir þingmenn Samfylkingarinnar hafi talað með sama hætti en ég minntist sérstaklega á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég minntist ekkert á hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur eða Rannveigu Guðmundsdóttur.

Ég fagna því ef hv. þingmenn Samfylkingarinnar yfir höfuð eru að komast á þá skoðun að húsnæðiskerfið hafi verið hrunið og að þær aðgerðir sem gripið var til hafi verið nauðsynlegar til að hægt væri að mæta þörfum fólksins. Það er nefnilega akkúrat það sem hefur gerst með þessu nýja kerfi, þörfum fólksins hefur verið mætt. Það fær úrlausn mála sinna nánast strax. Í dag tekur einhverja daga að ljúka málum þeirra og uppfylla kröfurnar. Áður tók mánuði eða jafnvel ár að uppfylla kröfur fólks. Í því liggur munurinn.