Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:04:26 (7293)

2002-04-09 15:04:26# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, GAK
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:04]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að þó að ég telji að hér sé frekar skammt gengið í að leysa þann vanda sem a.m.k. ég hef staðið í meiningu um að væri í félagslega húsnæðiskerfinu, þá held ég að hér sé verið að stíga spor í rétta átt og því beri að fagna frv. eins og það liggur fyrir og að það muni taka á hluta þess vandamáls sem við höfum búið við að því er varðar félagslega húsnæðiskerfið.

Í stuttu máli má kannski lýsa vandanum í félagslega íbúðakerfinu á tvennan hátt, þ.e. vandanum sem skapast hefur víða úti á landi, að þaðan hefur orðið mikill brottflutningur fólks sem m.a. hefur stafað af atvinnuástandi og ákveðnum stefnumálum sem ríkisstjórnin hefur keyrt eftir varðandi atvinnuhætti úti um landsbyggðina, m.a. í sjávarútvegi. Þar hefur vandinn skapast vegna þess að fólk hefur flutt af svæðinu og íbúðirnar standa auðar og lítt notaðar.

Vandinn er hins vegar með allt öðrum hætti á suðvesturhorninu, á Stór-Reykjavíkursvæðinu sérstaklega, þar sem vandinn er sá að hér vantar frekar leiguhúsnæði og húsnæði sem láglaunafólk getur átt aðgang að á félagslegum grundvelli sem er alveg öfugt við það ástand sem hefur skapast víða á landsbyggðinni. Það er einfaldlega þannig að margt fólk þarf á því að halda að eiga aðgang að félagslega íbúðakerfinu eða öðru sambærilegu ódýru leiguhúsnæði sem fólk getur átt innkomu í. Sá vandi, eins og ég gat um, er fyrst og fremst á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Biðlistar lengjast eftir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi er víða ónotað húsnæði.

Vandinn er tvenns konar og frv. sem hér er verið að ræða tekur að hluta til á þeim vanda sem skapast hefur á landsbyggðinni og ber að fagna því að það skref skuli stigið sem hér er lagt til þó að ég telji að það dugi varla til að taka á þeim vanda eins og honum hefur verið lýst, sem mig minnir að hafi verið upp á 2--3 milljarða kr.

Lengi hefur verið beðið eftir að frv. í þessa veru kæmi fram í þinginu sem tæki að hluta á því vandamáli sem frv. er ætlað að leysa, sennilega í ein fjögur ár, eða frá árinu 1998. Vandi margra sveitarfélaga þar sem fólksflótti hefur orðið af svæðum hefur verið mikill samfara íbúðarhúsnæði sem sveitarfélögin hafa setið uppi með.

Ég vil einnig fagna því sem kom fram í máli hæstv. félmrh. fyrr í dag um þá fjármuni sem bundnir hafa verið eftir að Orkubú Vestfjarða var selt, að þeir verði nú lausir til notkunar fyrir sveitarfélögin sem þar eiga hlut að máli. Ég er eftir sem áður ekki mjög hlynntur því að sveitarfélögin séu sett í þá stöðu að þurfa vegna m.a. íbúðalánakerfisins eða þróunar atvinnumála sem er bein afleiðing af stefnu stjórnvalda, að ganga á eignir sínar og selja þær, eins og t.d. Orkubú Vestfjarða sem ég leit svo á að væri eftirsóknarverður eignarhluti fyrir vestfirsk sveitarfélög til framtíðar þegar horft væri til uppbyggingar á orkumálum og annarrar uppbyggingar sem vissulega var þörf á í þeim landshluta. En það mál ræddum við lengi á síðasta vetri og því lauk eins og allir vita með því að orkubúið var selt og hluti af þeim fjármunum var notaður af sveitarfélögunum til að laga stöðu sveitarfélaganna.

Beðið var lengi eftir því að tekið væri á vandanum á landsvísu og frv. sem við nú ræðum tekur á því að hluta og því ber auðvitað að fagna þó það sé seint fram komið og þó ég telji að meiri fjármuni vanti inn í þetta frá hendi ríkisins til að taka á vandamálinu á landsvísu. Samt ber ekki að lasta það sem hér er verið að gera því ég tel að þetta sé til bóta en nokkuð skammt sé gengið til að ná utan um það vandamál sem hefur verið lýst í félagslega kerfinu á landsvísu og einkum að því er snýr að þeim byggðum þaðan sem mikill fólksflótti hefur verið á undanförnum árum og tekjur sveitarfélaga hafa dregist verulega saman.

En að öðru leyti get ég endað mál mitt á því að lýsa því yfir að vissulega munum við styðja frv.