Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 15:33:27 (7298)

2002-04-09 15:33:27# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er himinlifandi með þessa niðurstöðu því ég held að hún sé góð. Þetta er lausn á landsvísu sem aðilar málsins sætta sig við, sem samkomulag er um og menn telja fullnægjandi. Ég get ekki beðið um meira. Ég er mjög ánægður með það.

Ég kom því ekki að í ræðu minni áðan að svara hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Biðreikningurinn átti að standa þangað til lausn á landsvísu væri kominn. Þar af leiðir að peningarnir verða lausir þegar þessi lög taka gildi. Það er skynsamlegt fyrir sveitarfélög á Vestfjörðum sem telja að þau þurfi að losna við húsnæði að geyma eitthvað af þessum peningum til að nota í mótframlag á móti afskriftum Íbúðalánasjóðs. Ég veit að í Vesturbyggð er t.d. áhugi fyrir því að rífa eitthvað af húsnæðinu.

Það er rétt hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. að sveitarfélög eru sum í vandræðum. Hins vegar hefur líka orðið mikill viðsnúningur hjá sumum sveitarfélögum. Sveitarfélögin sem voru verst sett, Vestfjarðasveitarfélögin, eru öll komin í fínasta rekstrarform, (SJS: Jahá!) en þau seldu náttúrlega eignir. (SJS: Já.) Sauðárkrókur seldi eignir. Sauðárkrókur var illa skuldsettur en nú er búið að bjarga sveitarfélaginu með því að selja eignir. (SJS: Hvað ætla þeir að selja næst?) Nú geta þeir rekið sveitarfélagið. Nú geta þessi sveitarfélög rekið sig og þurfa ekki að eyða í vaxtakostnað meiri parti þess sem þau hafa til ráðstöfunar. (JB: Þetta er hörmungarkerfi.)