Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:01:18 (7304)

2002-04-09 16:01:18# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), Flm. KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:01]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni á hinu háa Alþingi aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu.

Um þessar mundir berast okkur fréttir af því að vanskilum hafi fjölgað verulega. Um síðustu áramót námu þau um 22,4 milljörðum kr. en um ári fyrr námu þau 12,9 milljörðum kr. Hér er um 74% aukningu að ræða sem hlýtur að valda okkur miklum áhyggjum. Þessi aukning vanskila á sér stað bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Í kjölfar þeirra sjáum við einnig gífurlega mikla aukningu fjárnáma og mikla aukningu í nauðungarsölum.

Herra forseti. Við skulum vona að skriða gjaldþrota sé ekki á leiðinni hjá fjölda heimila og fyrirtækja. Við skulum líka vona að allir þessir gífurlegu fjármunir, þ.e. 22,4 milljarðar, verði sem allra skemmst á 22% vanskilavöxtum, en það nemur um hálfum milljarði króna á einu ári.

Já, dráttarvextir eru háir og það sem kallað er verðbætur hér og venjulegir vextir eru það líka. Fyrir skömmu voru vextir reyndar lækkaðir á óverðtryggðum lánum en því miður eru vextir enn gífurlega háir og þjónustugjöld bankanna fara hækkandi. Gæði útlánastofnana felast ekki í að ausa út fé á báðar hendur ef þeir sem taka lánin eru ekki borgunarmenn fyrir þeim.

Ég tel, herra forseti, að tími sé kominn til að gerð sé gangskör í því að bankarnir sýni mun meiri ábyrgð í útlánum sínum og komi til móts við skuldunauta sína sem margir hverjir horfa fram á dimma daga. Samfélagið mun ekki hagnast á að fjöldi manna, þá sértaklega ungt fólk, verði gerður gjaldþrota, í mörgum tilvikum vegna gylliboða og tálsýna sem leiddu þá í freistni. Við þær aðstæður sem nú blasa við verða útlánastofnanir að hugsa sinn gang áður en farið er út í fjárnámsaðgerðir með tilheyrandi innheimtukostaði og alls kyns gjöldum sem hafa þau áhrif að venjulegu fólki fallast hendur, þá ekki síst þeim sem hafa tekið að sér að skrifa upp á lán hjá vinum og vandamönnum af því að bankarnir hafa mikla tilhneigingu til að kalla fleiri til ábyrgðar en þá sem þeir lána peninga.

Herra forseti. Það er allt of mikil útlánagleði í þessu landi. Hér keyra menn á bílalánum, yfirdrætti og kreditkortum og það á fleygiferð. Ég tel, herra forseti, að því miður sé um samfélagslegt mein að ræða og vil ég auðvitað alls ekki kalla lánastofnanir einar til ábyrgðar. Auðvitað verða lántakendur líka að vera ábyrgir í gerðum sínum og ég vona að annar andi en sá sem ríkt hefur hér á landi taki nú senn við og að flest það fólk sem leiðst hefur í neyslulánagildruna sleppi þaðan með litlum skaða.

En því miður eru teikn hættunnar á lofti. Okkur berast þær fréttir að sífellt fleira fólk sem lent hefur í greiðsluerfiðleikum sæki í ríkari mæli á náðir félagsmálastofnana, Hjálparstofnunar kirkjunnar og fleiri aðila sem vilja koma þeim illa settu til hjálpar.

Það er athyglisvert, herra forseti, að bankarnir skuli geta skilað milljarða hagnaði og það stórlega vaxandi hagnaði á sama tíma og vöxtur vanskila er slíkur sem raun ber vitni. Eru þessi vanskil kannski forsenda alls þessa hagnaðar? Ef svo er hljótum við að velta fyrir okkur hvort ekki sé meira en lítið að í bankakerfinu.

Svo virðist sem alvarleg slagsíða sé komin á útlánastofnanirnar. Verði hún öllu meiri er hætta á því að þær fari á hliðina. Sú hætta vex með hverjum þeim lántakanda sem lendir í vanskilum, að ekki sé talað um þá sem verða gjaldþrota. Það er betra að hagnaður bankanna, herra forseti, sé minni ár hvert og vari lengur en að hið gagnstæða gerist.

Herra forseti. Ég beini nú eftirfarandi spurningum mínum til hæstv. viðskrh.:

Hver er skoðun hennar á þessari þróun?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að útlánastofnanir verði ábyrgari í útlánum sínum?

Hyggst hæstv. viðskrh. leggja til við útlánastofnanir að þær auki fjármálalega ráðgjöf sína þannig að minni hætta sé á að fólk lendi í vanskilum þeim sem nú er orðin raunin á?