Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:06:34 (7305)

2002-04-09 16:06:34# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að taka þetta mál hér upp utan dagskrár. Ég tel málið brýnt og þarfnast umræðu hér á hv. Alþingi.

Það er rétt hjá hv. þm. að vanskil hafa verið að aukast að undanförnu og að fjárnámum hefur fjölgað. Ef ég tek vanskil sem dæmi þá hafa eins mánaðar vanskil einstaklinga hjá innlánsstofnunum vaxið úr 3,33% af útlánum í árslok 2000 í 4,91% í lok síðasta árs.

Það þarf reyndar ekki að koma mjög á óvart að vanskil hafi aukist á síðustu mánuðum. Síðustu ár hafa vanskil nefnilega verið í sögulegu lágmarki. Kaupmáttur heimilanna hefur aukist gríðarlega, um fjórðung síðan 1995, og næga atvinnu hefur verið að fá. Hagvöxtur hefur á sama tíma aukist mun meira en í samkeppnislöndum okkar. Á þessu hlaut að hægja á endanum þó ekkert bendi til að lendingin í efnahagsmálum þjóðarinnar verði hörð. Þó er búist við að landsframleiðsla dragist saman um 0,5% á þessu ári og kaupmáttur ráðstöfunartekna minnki lítillega.

Hins vegar er það óneitanlega mikið áhyggjuefni þegar skuldir heimila við lánakerfið rúmlega tvöfaldast á sama tíma og kaupmáttur ráðstöfunartekna eykst um fjórðung. Nú eru skuldir heimila við lánakerfið nálega 700 milljarðar kr. en voru 317 milljarðar árið 1995. Hverju er um að kenna? Kunna Íslendingar fótum sínum ekki forráð í fjármálum? Er þetta hugsanlega sök bankanna sem hafa freistað fólks með gylliboðum? Við þessum spurningum er ekki til neitt einhlítt svar og engin einn sökudólgur. Þrátt fyrir mikinn stöðugleika í efnahagsmálum í yfir áratug hefur Íslendingum ekki auðnast að læra þá göfugu list að spara og fara vel með fé.

Í þessu efni eru bankarnir ekkert betri en þjóðin sem skapar þá og á þó að gera miklar kröfur til banka. Bankarnir hafa starfsleyfi frá stjórnvöldum á fjármálamarkaði. Þar starfar vel menntað fólk í fjármálum og bankarnir eiga að gegna lykilhlutverki í að efla vitund þjóðarinnar fyrir sparnaði. Útlánastefna þeirra á að vera ábyrg og taka mið af greiðslugeta viðskiptavinanna. Bankarnir verða að þekkja viðskiptavini sína, gefa þeim góð ráð og gæta þess að þeir reisi sér ekki hurðarás um öxl. Láti bankarnir stjórnast af stundargróða, læra viðskiptavinirnir ekki af þeim góða siði.

Það er mitt mat að bankarnir standi sig betur en áður í þessum efnum. Í auknum mæli eru lánveitingar miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Greiðslugeta greiðanda er metin í sífellt fleiri tilvikum og er það skylda bankanna að meta hana við tilteknar aðstæður. En þó er langt frá því að bankarnir fái toppeinkunn fyrir frammistöðu sína á þessu sviði. Um það vitna mýmargar sögur frá einstaklingum og fyrirtækjum um allt land.

En hvað er til ráða? Hér skiptir hugarfarið meira máli en setning reglna. Fræðsla er lykilatriði í þessu sambandi. Í aðalnámskrá grunnskóla er nú að finna námsgreinina lífsleikni sem m.a. tekur á fjármálum heimilanna þó í litlum mæli sé. Hér er að mínu viti hægt að gera betur. Stjórnvöld, bankar og aðrir hagsmunaaðilar geta hrundið af stað þjóðarátaki til að efla fjármálavitund þjóðarinnar líkt og að sporna gegn verðbólgu. Þetta tvennt er reyndar nátengt. Þegar skuldir heimila eru orðnar langt umfram árlegar ráðstöfunartekjur er orðin veruleg þörf á þjóðarátaki um sparnað.

Hæstv. forseti. Reglur geta verið til margra hluta nytsamlegar þó þær séu reyndar ekki allra meina bót. Ég og forverar mínir í starfi hafa lagt fram ótal frv. í gegnum tíðina til að bæta stöðu neytenda. Ugglaust er þó hægt að gera enn betur í því efni. Ég vil sérstaklega nefna eitt atriði sem farið hefur fyrir brjóstið á mér og sjálfsagt fjölmörgum viðskiptavinum bankanna í gegnum tíðina, þ.e. að verðtryggð lán skuli yfirleitt vera með breytilegum vöxtum en ekki föstum vöxtum. Ég á mjög erfitt með að sjá siðferðileg og viðskiptaleg rök fyrir þessu fyrirkomulagi. Með þessu eru lánveitendur bæði með belti og axlabönd. Þeir hafa varið sig gegn verðbólgu en geta engu að síður breytt vöxtum eftir því sem vindar blása.

Með þessu fyrirkomulagi á lántaki enga möguleika á að gera sér grein fyrir raunverulegri greiðslubyrði sinni til lengri tíma. Ég mun óska eftir því við Seðlabankann að þessu fyrirkomulagi verði breytt.