Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:11:52 (7306)

2002-04-09 16:11:52# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Málið sem hv. þm. Karl V. Matthíasson hefur hér tekið upp er alvarlegt miðað við stöðuna sem við erum í í dag. Samkvæmt fréttum hafa aldrei jafnmargir sótt um aðstoð frá Mæðrastyrksnefnd eða hjálparstarfi kirkjunnar eins og nú fyrir páska. Á sama tíma koma fréttir af miklum hagnaði, milljarða hagnaði, viðskiptabankanna og að hvergi séu þjónustugjöld jafnhá og hér á landi, hjá þeim.

Herra forseti. Það er vaxandi fátækt í landinu. Bilið eykst, þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Hver eru viðbrögð stjórnvalda í þessari þróun? Jú, aukin einkavæðing í heilbrigðiskerfinu, hærri hlutdeild sjúklinga og þeirra sem þurfa að leita á náðir heilbrigðiskerfisins, hærri hlutdeild þeirra í komukostnaði, hærri hlutdeild í lyfjakostnaði. Þetta, virðulegi forseti, lendir harðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar.

Hver voru viðbrögð ríkisvaldsins í skattamálum? Jú, í stað þess að hækka skattleysismörk eða að koma til móts við þá þjóðfélagshópa sem lægstar tekjurnar hafa var valið að lækka hátekjuskatt, hjá þeim sem hafa hæstar tekjurnar og breiðustu bökin. Er það nú rétt leið, virðulegi forseti?

Lítum á vaxtastefnu bankanna, Landsbankans og Búnaðarbankans, sem eru í meirihlutaeigu ríkisins, meirihluti hlutabréfanna í þeim er í eigu ríkisins. Meiri hlutinn gæti líklega ráðið og sagt þessum þjónustustofnunum hver vaxtastefnan skuli vera.

Virðulegi forseti. Það er ríkisstjórnin sem bregst í þessu tilviki.