Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:14:15 (7307)

2002-04-09 16:14:15# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), VE
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:14]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Hann er ótrúlegur þessi samfelldi söngur um að hinir ríku séu að verða ríkari og hinir fátæku að verða fátækari hér á Íslandi þegar samanburður á milli ríkja sýnir trekk í trekk að hvergi er jöfnuður meiri en einmitt hér á Íslandi, í öllum alþjóðlegum samanburði.

Varðandi málið sem hér er til umræðu er kannski rétt að hafa í huga að íslenskt efnahagslíf og þjóðfélag almennt hefur verið að breytast afar hratt á undanförnum árum. Við sáum fyrir tveimur til þremur árum að einkaneysla jókst mjög hratt og umfram það sem kaupmáttur heimilanna jókst. Fólk var sem sé að fjármagna neyslu sína með lánum. Þegar hægir á, eins og nú hefur gerst í efnahagslífinu, er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að við sjáum vanskil aukast í bönkunum og annars staðar.

Ég held að ef við skoðum þessa hluti nánar sé merkilegt hvað vanskil hafa aukist lítið og hvað bankarnir hafa í raun gengið langt í að koma til móts við fólk og hvernig það hefur tekist að auka þjónustu bankanna á undanförnum árum þannig að fólk lendi ekki í sömu vandræðum og áður fyrr. Fólk þarf ekki annað en fara inn í banka núna og skoða hvernig útlits er þar miðað við það sem var fyrir 10--15 árum. Þá var varla hægt að fá lán án þess að tala við bankastjórann. Nú eru það fyrst og fremst þjónustufulltrúar sem aðstoða viðskiptavini við að fá meiri lán og til að lækka lán og veita alls konar ráðgjöf í fjármálum. Það er engin tilviljun að staða margra heimila hefur batnað mjög verulega við að bankarnir tóku upp greiðsluþjónustu og byrjuðu að jafna greiðslur fyrir fólk.

Ég nefni t.d. að á Sauðárkróki eru yfir 400 fjölskyldur í greiðsluþjónustu hjá bönkunum. Þetta hefur haft mjög mikla þýðingu og komið virkilega vel út fyrir íbúa þar.