Aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:25:43 (7312)

2002-04-09 16:25:43# 127. lþ. 115.95 fundur 492#B aukin vanskil og fjölgun fjárnáma í landinu# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fjöldi heimila þarf að framfleyta sér á dýrum yfirdráttarlánum á hverjum einasta mánuði til þess að eiga fyrir nauðþurftum. Formaður efh.- og viðskn. segir við þetta fólk að það eigi bara að taka meira af þessum okurlánum. Hæstv. ráðherra segir við þetta fólk að það eigi að spara. En auðvitað dugar það ekki.

Ég ætla að leggja fyrir hæstv. ráðherra fjórar tillögur sem kosta ríkissjóð sama og ekki neitt en skipta fjölda heimila í þessu landi gífurlega miklu og geta forðað þeim frá gjaldþroti.

Í fyrsta lagi legg ég til að samþykkt verði frv. þingmanna Samfylkingarinnar um greiðsluaðlögun. Það er úrræði sem kemur í veg fyrir gjaldþrot heimila og er leið fyrir fólk til að vinna sig út annars vonlausri stöðu án þess að missa eignir sínar. Framsfl. lofaði fólki þessu á árinu 1995. Það er orðið tímabært fyrir Framsfl. að standa við það.

Hæstv. ráðherra á að drífa inn í þingið frv. sem sjálfstæðismenn sitja á um innheimtulög sem kemur í veg fyrir okur lögmanna á skuldugum einstaklingum. Fyrirskipa á lánastofnunum að standa fyrir víðtækri fræðslu til lántakenda, m.a. um kostnað við lántöku, og gera betur í að framkvæma tillögu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur sem samþykkt var á Alþingi fyrir nokkrum árum um víðtæka fjármálakennslu í efri bekkjum grunnskóla og í framhaldsskólum. Samþykkja þarf frv. þingmanna Samfylkingarinnar um ábyrgðarmenn sem m.a. tryggir að ekki verði gerð aðför að fasteign ábyrgðarmanns, þ.e. þeirri sem hann býr í, þannig að tryggt sé að fólk missi ekki heimili sín þótt það gangist í ábyrgð fyrir skuldir þriðja aðila.

Þetta eru leiðir sem duga. Ég skora á hæstv. ráðherra að framfylgja þessum tillögum.