Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:35:12 (7316)

2002-04-09 16:35:12# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, KLM
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:35]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Sú till. til þál. sem hæstv. samgrh. hefur fylgt úr hlaði er um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004.

Það er skemmst frá því að segja að vorið 2000, nánar tiltekið 13. maí, rétt fyrir þinglausnir, var samþykkt á Alþingi till. til þál. um vegáætlun 2000--2004, og um þá áætlun var mikil sátt. Sú tillaga var samþykkt af öllum þeim þingmönnum sem viðstaddir voru, tæplega 40 minnir mig. Þessi áætlun var náttúrlega byggð á þeirri langtímaáætlun sem Alþingi samþykkti í byrjun júní 1998.

Þessi áætlun er öðruvísi að því leytinu til, eins og hæstv. ráðherra minntist á áðan, að fyrir þinginu liggur frv. til laga um samræmda samgönguáætlun sem því miður er ekki útrætt en núna, við 3. umr., hefur komið fram tillaga um að m.a. vegáætlun og flugmálaáætlun verði gerðar aðeins til eins árs, þ.e. fyrir árið 2002. Eins og ég segi er sú tillaga ekki samþykkt. Engu að síður held ég að það sé víðtækur stuðningur við hana hér í þinginu og þess vegna er það eðlilegt að vegáætlun sé gerð nú fyrir árið 2002, eins og reyndar hefur komið fram á fundi með fulltrúum Vegagerðarinnar í hv. samgn.

Ég er út af fyrir sig hlynntur þessu og tel að þarna sé rétt að málum staðið, hefði þó talið allt í lagi að setja inn veg\-áætlun 2003 til hliðsjónar en á fundum í samgn. hefur komið fram að vafalaust muni það fylgja með í nál. samgn. til að sýna fram á --- vegna þess að mörg verk fara yfir áramótin --- hvernig Alþingi ætlar að veita fé á næsta ári. Samkvæmt boðun hæstv. samgrh. mun þessi samræmda samgönguáætlun sem sagt koma inn í þingið næsta haust, og þá verður tekið til við að búa til áætlun í takt við það sem þá liggur fyrir þar sem horft verður lengra fram í tímann.

Ég sagði áðan að við síðustu samþykkt, 13. maí 2000, hefði verið víðtæk samstaða um vegáætlunina. Hún tók töluverðum breytingum í meðförum samgn., frá því að hún var lögð fram, þar sem allmiklu fé var bætt við til vegamála og í raun og veru var töluverð flugeldasýning, skrautsýning, sett upp í framhaldi af því.

Þau áform voru ágæt, mjög góð. Þau sýndu fram á vilja til að verja auknu fé af sértekjum til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu sem margir þingmenn höfðu kallað eftir. Ég held að það hafi verið ágætt mál og gott enda studdi ég það. Þá var hins vegar ástandið í þjóðfélaginu þannig að allir helstu efnahagsspekúlantar þjóðarinnar komu fram á sviðið og vöruðu mjög við þensluáhrifum og lýstu áhyggjum af þessum miklu vegaframkvæmdum. Nú hefur dregist saman í efnahagsmálum, herra forseti, það hefur kólnað, þenslan er ekki eins mikil og þess vegna ættu hvorki þau áhrif að koma fram núna né áhyggjur. Engu að síður er nú sett inn frestun upp á tæpa 2,2 milljarða kr., þ.e. frestun á framkvæmdum núna fyrir 1,5 milljarða og frestun framkvæmda frá síðasta ári upp á 700 millj., sem koma inn núna. Samkvæmt þessu þarf að færa til verkefni sem eru í gildandi vegáætlun fyrir rúma 2,2 milljarða kr.

Þó að freistandi sé að segja ,,miðað við kólnun í efnahagslífinu og minni þenslu`` væri auðvitað mjög eðlilegt að auka við framkvæmdir í samgöngumálum og vegamálum á þessum tíma. En við það að hafa farið í gegnum þau gögn sem hafa fylgt með og við í samgn. höfum fengið er ekki svo gott að fara í gegnum það, aðallega vegna þess að mörg verk sem áttu að fara í gang á þessu ári hafa tekið miklu lengri tíma í hönnun en ætlað var, og að fara eftir öllum þeim lagabálkum sem á að fara eftir. Þess vegna eru mörg af þeim verkum bara hreinlega ekki tilbúin. Í raun og veru kemur sjálfkrafa inn töluverð frestun vegna þess að verk eru ekki tilbúin. Það hefur komið fram, herra forseti, að það taki Vegagerðina lengri tíma að búa verk til útboðs. Það er m.a. út af auknu samráði við aðila, mjög miklum og auknum kröfum og síðast en ekki síst vegna stóraukinna krafna um mat á umhverfisáhrifum. Þetta hefur leitt til þess, herra forseti, að undirbúningur verka tekur lengri tíma. Þess vegna eru mörg verk sem áttu að hefjast á þessu ári, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, ekki tilbúin til útboðs og verða það ekki fyrr en seint á þessu ári og jafnvel ekki fyrr en um áramót. Þess vegna e.t.v. er frestunin bara sjálfkrafa.

Þetta vildi ég aðeins draga fram, herra forseti, og það er sama hvort það eru hin fjölmörgu verkefni sem áttu að fara í gang á höfuðborgarsvæðinu, sjálfsögð og eðlileg verkefni eins og mislæg gatnamót og breikkanir á götum og vegum, eða framkvæmdir við jarðgöng. Þar liggur það fyrir, herra forseti, að framkvæmdir gætu ekki hafist fyrr en seint á árinu og þess vegna liggur það beinast við að niðurskurður verði á því fjármagni, þ.e. af þeim 1.450 millj., sem ætlað var í vegáætlun þessa árs. Engu að síður er það þannig sett upp að útboðsferlið og verkáætlunin eru í fullum gangi, forval á verktökum stendur yfir og verkið verður boðið út í heild sinni. Því ber auðvitað að fagna að þetta verk geti hafist þótt seint sé á þessu ári.

Sama á við um hin margvíslegu verkefni sem átti að vinna á höfuðborgarsvæðinu. Það sem hefur líka komið fram, sem kannski er öllu alvarlegra, er að svo virðist sem margar þær framkvæmdir sem eru í frekari hönnun taki til sín miklu meiri peninga en ætlað var, m.a. út af auknum kröfum eins og við mislæg gatnamót o.s.frv. Þetta eru bara hlutir sem rétt er að draga fram í þessari umræðu, herra forseti, og sem leiðir ósjálfrátt til þessa niðurskurðar upp á 2,2 milljarða. Ég held að miðað við efnahagsástand hefði frekar átt að gefa í við ýmsar framkvæmdir. En þetta var ákveðið við afgreiðslu fjárlaga og styðst því miður við þau rök sem ég hef hér farið yfir þar sem verk eru hreinlega ekki tilbúin til framkvæmda.

Herra forseti. Ekki gefst tími á þeim átta mínútum sem þingmenn hafa til að ræða þáltill. í þaula. Að öðru leyti er þetta mjög hefðbundin áætlun, bæði hvað varðar tekjuhliðina, skiptingu á bensíngjaldi, þungaskatti og öðru slíku nema það kemur fram, miðað við fyrstu áætlanir, að bensíngjald lækkar en sérstakur þungaskattur, árgjald, hækkar að sama skapi. Það er sennilega þróunin sem á sér stað í landinu þar sem menn fara meira út í dísilbifreiðar.

Herra forseti. Eins og ég segi, á þessum stutta tíma gefst ekki tími til að fara yfir þessa áætlun frekar en þar sem ég sit í hv. samgn. bíð ég spenntur eftir því að geta farið að fjalla um þessa áætlun.