Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 16:43:33 (7317)

2002-04-09 16:43:33# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til fyrri umr. till. til þál. um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004. Eins og hæstv. ráðherra greindi frá nær þessi fjögurra ára áætlun aðeins til eins árs. Rökin sem hafa verið færð fyrir því eru að uppi eru hugmyndir, og liggja fyrir mál í þinginu, um að önnur skipan verði tekin upp á áætlunargerð í samgöngumálum, samræmd áætlun, bæði fyrir vegi, flug og sjóflutninga.

Sú fyrirhugaða skipan er að mínu viti skynsamleg og ég vænti þess að hún verði einungis til þess að styrkja og efla uppbyggingu samræmdra samgangna í landinu. Engu að síður tel ég, virðulegi forseti, að rétt hefði verið af hæstv. samgrh. að leggja fram till. til þál. um fjögurra ára veg\-áætlun eins og lög kveða á um. Vegáætlun hefur ætíð verið áætlun og framkvæmd hennar á hverju ári er bundin af því fjármagni sem veitt er til hennar á fjárlögum. Hins vegar hefur í henni verið fólgin ákveðin stefnumörkun um hvert framhald í áherslum skuli vera og það hefði verið mikilvægt og nauðsynlegt fyrir bæði vinnu, útboð og undirbúning á framkvæmdum að þarna væri horft til lengri tíma þó að fjármagn hvers árs skammti þá áfanga sem ráðist er í.

[16:45]

Þess vegna verð ég að segja, herra forseti, að ég tel þá framkvæmd að leggja fram till. til þál. um breytingu á vegáætlun, þessa fjögurra ára áætlun bara til eins árs, vera ranga nálgun á því viðfangsefni. Og sú afsökun sem hæstv. ráðherra hefur borið fram við því finnst mér heldur ekki marktæk. Það er alveg ljóst að mun betra hefði verið að vinna áfanga til lengri tíma á grundvelli áætlunarinnar. Þótt vísað sé til þess að að sjálfsögðu verði tekið mið af þeirri vegáætlun sem var í gildi eða hefur verið í gildi til næstu komandi ára varðandi verkefni, þá hefði hreint og beint alveg eins verið gott að stilla upp fjögurra ára áætlun í vegamálum og hún síðan lotið breytingum á næsta ári eins og alþekkt er.

En kannski speglast þarna einmitt það að hæstv. samgrh. hefur ekki haft stuðning eða sýn til þess að treysta sér til að leggja fram samgönguáætlun til næstu ára. Kannski er það að speglast hér miklu frekar en sú afsökun sem borin hefur verið fram. Þetta vil ég, virðulegi forseti, gagnrýna í upphafi og tel ekki góð vinnubrögð að leggja fram frv. til aðeins eins árs sem senn er nærri hálfnað.

Þá vil ég víkja að vegáætluninni sjálfri. Í tillögunni eru í sjálfu sér ekki kynntar aðrar tölur en þær sem eru í áætluninni, en hins vegar hafa verið kynntar á öðrum vettvangi þær heildarniðurskurðarhugmyndir í vegáætlun sem ætlunin er að komi til framkvæmda á þessu ári, en heildarniðurskurðurinn er áætlaður liðlega 2 milljarðar kr. frá gildandi vegáætlun.

Ef litið er til ástandsins og stöðunnar í atvinnumálum, í verktakamálum og í vinnu við verkefni af því tagi sem vegagerð er nú, þá fyndist mér það einmitt vera athugandi af hálfu ríkisvaldsins að skera ekki niður framkvæmdir til vegamála og samgöngumála. Ljóst er að framkvæmdir við stórvirkjanir eins og fyrirhugaðar voru við Kárahnjúkavirkjun munu frestast um lengri eða skemmri tíma, a.m.k. koma þær ekki inn á þessu ári eða aðrar stórframkvæmdir sem þeim tengjast en sú virkjun eða framkvæmdir við þá virkjun voru undirliggjandi rök fyrir því að tefja framkvæmd við jarðgangagerðina, að varhugavert væri að taka mörg stórverkefni í einu á ári. En nú er ljóst að af þeim stórframkvæmdum sem tengjast virkjunum verður ekki og þá væri einmitt virkilegt svigrúm til að gera átak í jarðgangagerðinni.

Það eru heldur lítil rök að segja að undirbúningur sé ekki kominn nægilega langt til þess að hraða framkvæmdum þar. Ef sú stefna hefði verið tekin strax fyrir ári eða jafnvel fyrr að setja meiri kraft í undirbúning jarðgangagerðar, þá gætum við verið að ráðast í framkvæmdir á þeim brýnu jarðgöngum nú á þessu ári. Og þau vinnubrögð vil ég gagnrýna, herra forseti, að ekki skuli hafa verið lögð meiri áhersla og fyrr á undirbúning jarðgangagerðarinnar. Þegar við sjáum þá stöðu sem nú er uppi á Austurlandi að ekki eru líkur á að ráðist verði í Kárahnjúkavirkjun í bráð eða í framkvæmdir á Reyðarfirði sem tengdust fyrirhugaðri álverksmiðju þar þá hefði verið bæði samfélagslegt svigrúm og einnig líka mjög gott innlegg í byggðaaðgerðir þar að ráðast í stórverkefni á sviði samgöngumála í þeim fjórðungi sem hefur svo mjög verið dreginn á loforðum í samgöngumálum.

Virðulegi forseti. Ég vildi draga þetta hér fram. Ég vil að endingu einnig leggja áherslu á að niðurskurðurinn má heldur ekki koma niður á vegum um hinar dreifðu byggðir landsins. Í byggðaáætlun og öllum úttektum sem lúta að byggðaáhrifum er lögð áhersla á vegaframkvæmdir út um land. Og einmitt nú er ekki hvað síst ástæða til að gera þar aukið átak í vegaframkvæmdum í stað þess að skera þær niður. Ég tel það ranga nálgun í því efnahagsástandi sem er og í þeim verkefnum sem er brýnt að á verði tekið, að skera niður í vegamálum og ég mótmæli því.