Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:07:02 (7322)

2002-04-09 17:07:02# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held reyndar að sektirnar muni kannski ekki draga langt í þessu þó þetta geti verið grundvallarmál, prinsippmál, þ.e. ef einhver er að auka eftirlit og leggja í kostnað af þeim sökum þá er dálítið ankannalegt að tekjurnar renni annað. En ætli það sé ekki stóra skattlagningin sem mestu skiptir þarna. Þar eru hlutföllin þessi og hallað hefur á Vegasjóð. Það er alveg ljóst að hann fær hlutfallslega minna til sín miðað við heildarskattlagningu af umferð en hann gerði þegar best lét. Það er alveg ljóst. Vegna þess hvað þörfin er brýn og aðkallandi víða, vegna þess hve umferðin vex, af umhverfisástæðum og hvernig sem á málið er litið, eru í raun ekki efni til annars en að ráðstafa þessum fjármunum til framkvæmda. Ég er enginn sérstakur talsmaður þess --- svo það misskiljist heldur ekki --- að lækka eitthvað skattlagningu af umferð. Ég tel að hún eigi að vera mikil m.a. vegna þess að þar þarf gríðarlegar framkvæmdir og það er dýrt. Og það hefur líka umhverfisáhrif ef umferð vex upp úr öllu valdi, ekki síst í þéttbýlinu.

Varðandi það sem kom fram áðan um að mörg verk væru einfaldlega ekki tilbúin og þess vegna væri kannski þessi samdráttur ekki eins tilfinnanlegur þá verð ég að segja að eigi það við um einhver af stærri verkefnunum, sem ég gef mér þá að sé verið að vitna til, þá skapar það ekki mikið vandamál ef vilji er fyrir hendi til þess að halda framkvæmdastiginu uppi. Það bíður miklu meira en nóg af brýnum verkefnum í almennri vegagerð sem hægt er að ráðast í staðinn, svo sem endurbygging vega þar sem ekki er verið að víkja að neinu ráði frá vegarstæðinu og styrking og lagning slitlags. Því þarf ekki að nota það sem afsökun eða skálkaskjól fyrir því að verkefni vanti eða ekki sé hægt að ráðst í verkefni vegna þess að ekki sé búið að gera umhverfismat eða vegna þess að gerð útboðsgagna sé svo flókin o.s.frv. Það er nóg til af öðrum verkefnum þar sem hvorugt á við og hægt er með nokkurra vikna fyrirvara að ráðast í mjög brýnar framkvæmdir. Það er þá bara að snúa sér að því að færa fjármunina yfir í það.