Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:09:32 (7323)

2002-04-09 17:09:32# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GHall
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:09]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Till. til þál. um breytingu á vegáætlun fyrir árin 2000--2004 er hér til umræðu og ekki er nema von að menn skiptist á skoðunum í því efni og sitt sýnist hverjum. Komið var inn á það áðan að tekjur af umferðinni væru um 26 milljarðar og ekki kæmu til vegamála nema 11--12 milljarðar af því. En menn mega ekki gleyma því að annað og meira þarf til þegar horft er á tekjur vegna umferðar. Það er ekki bara hægt að láta það allt renna til vegamálanna sjálfra vegna þess að einu og öðru sem hlýst af umferðinni þarf að mæta öðruvísi en þannig að það renni allt til brúargerðar, mislægra gatnamóta eða vegakerfis með bundnu slitlagi.

Hér hefur verið rætt um nauðsyn á frekari framkvæmdum vegna umferðar á höfuðborgarsvæðinu og það er rétt. Hitt er annað mál að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa gert ákveðnar tillögur um framtíð og framgang þeirra mála sem stangast nokkuð á við það sem veitt hefur verið í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu á umliðnum árum. Það er auðvitað mál sem þarf að taka til frekari umfjöllunar því sveitarfélögin gera kröfu til verulegs umframfjármagns vegna þeirra framkvæmda.

Hér var komið aðeins inn á frestun framkvæmda vegna þess að sveitarfélög hafi ekki skilað sínum heimaverkefnum. Vil ég þar sérstaklega nefna mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þar sem fara um 80 þúsund bifreiðar á dag. Ég held að það sé einsdæmi, en á fjárlögum fyrir tveimur árum voru eyrnamerktar 200 millj. til væntanlegra framkvæmda við mislæg gatnamót í Reykjavík. En ótiltekið var hvar þau yrðu vegna þess að verið var að bíða eftir því að borgaryfirvöld kæmu sér saman um það hvernig ætti að byggja þetta mikla mannvirki. Nú skilst mér að það sé þó í burðarliðnum og að menn séu á eitt sáttir um það hvernig eigi að halda á þeim málum og betur er að svo sé þegar litið er til þess, eins og ég sagði hér áðan, að þarna er gífurleg umferð, um 80 þúsund bílar á dag.

Hæstv. samgrh. kom hér líka inn á aðrar framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu sem eru mjög nauðsynlegar, t.d. við þær leiðir sem liggja út úr höfuðborginni. Sú staðreynd blasir t.d. við að Akurnesingur á leið til Reykjavíkur er jafnlengi að keyra frá Akranesi til Mosfellsbæjar og frá Mosfellsbæ í miðborg Reykjavíkur. Það kemur náttúrlega til af því að mikið umferðarálag er á Vesturlandsveginum, 18--19 þúsund bílar á dag. Menn horfa samt til Reykjanesbrautar og telja að hún eigi að njóta forgangs, en um hana aka um 7--8 þúsund bílar á dag. En svona eru menn að deila um hvað sé best. Síðan koma þingmenn hinna dreifðu byggða og ég skil þá vel þegar þeir tala um að þar þurfi að taka myndarlega á.

Hér talaði síðasti ræðumaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, um að það hefði nánast verið tekið svo á vöruflutningum að þungaflutningum hafi verið komið niður á vegina. Ég er alveg sannfærður um að auðvitað er meining þingmannsins allt önnur en felst í þessum orðum sem hann segir. Tíminn gerir þessar kröfur og tímarnir hafa breyst eins og ég hef áður sagt. Fólk vill fá vöruna fyrr og á annan hátt en með strandsiglingum. Það vill fá matvöruna löngu áður en dagsetning vörunnar, þ.e. síðasti söludagur, rennur út o.s.frv. Fólk sem pantar vörur í dag vill fá þær á morgun en ekki eftir viku. Þessi þróun er auðvitað ný og henni þarf að mæta. En það gerist ekki í fjárhagsáætlun til vegamála af þeim krafti sem hér er talað um.

Rætt var um það áðan að eðlilegt væri að sektir vegna umferðarlagabrota rynnu í Vegasjóð. En á það má einnig benda að Vegagerðin leggur allverulegar upphæðir til öryggismála og öryggigæslu á vegum og er það auðvitað vel.

Það er rétt sem hér hefur verið komið inn á að þröskuldar eru hér á höfuðborgarsvæðinu sem auðvitað þarf að taka á. En við þingmenn Reykjavíkur gerum okkur líka fulla grein fyrir því að það þarf að taka tillit til vega úti á landi og jafnframt þarf að vinna að uppbyggingu og lagfæringu þeirra. En ekki er hægt að sinna öllu því sem menn vilja gera og fjármagn sem til þessara hluta er lagt er takmarkað. Það er því verk samgn. og líka þingmanna kjördæma, sem munu hefja störf í dag eða næstu daga með Vegagerðinni, að raða niður þeim verkefnum sem mest brennur á. Ég held að það sé mjög gott fyrirkomulag að alþingismenn hafi fingurna á púlsi umferðarinnar og þeirra óska sem helst brenna á í hverju kjördæmi.

Herra forseti. Það er vissulega verk að vinna fyrir samgn. að taka á þessum málum. Við munum fjalla um þessa till. til þál. og vona ég að við getum unnið úr henni þannig að allir megi nokkuð sáttir við sitja.