Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:16:26 (7324)

2002-04-09 17:16:26# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:16]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil bæta örfáum atriðum við í fyrri umr. um vegáætlun og vildi heyra skoðun hæstv. ráðherra á þeim.

Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér þessu mati á stöðu verklegra framkvæmda. Nú þegar ljóst er að ekki verður ráðist í stórvirkjanir á Austurlandi eins og ráð var fyrir gert, er þá ekki einmitt tækifæri til að endurskoða þessar niðurskurðarhugmyndir? Þessar niðurskurðarhugmyndir sem hér eru inni eru gamlar, voru kynntar sl. haust við fjárlagagerðina. Þá var einmitt horft til að ráðist yrði í virkjunarframkvæmdir og því erfitt að hafa þetta undir að auki. En nú er það breytt. Sömuleiðis eru horfur á að það gæti verið hagkvæmt að bjóða út eða fara í stórverkefni á þessum tíma. Eða hver er staðan í verktakabransanum þegar kemur að vegagerð?

Við höfum áður rætt vegaframkvæmdir, að taka þurfi tillit til almennrar stöðu í verktakarekstrinum og starfseminnar þar og sömuleiðis stöðunnar í þjóðfélaginu í heild hvað varðar og áhrif verkefnanna á þenslu. Hver er staðan í dag? Væri ekki skynsamlegra að ráðast nú í aukin verkefni og minnka þennan niðurskurð? Ég spyr: Hefur þetta verið athugað? Hefur þetta verið kannað? Ég vildi heyra mat hæstv. ráðherra á því. Eins og ég sagði eru þessar niðurskurðartölur frá því í haust.

Ég tek fram að ég tel að vegaframkvæmdir eigi í sjálfu sér ekkert að tengjast sölu á ríkisfyrirtækjum. Ég tel fáránlegt að tengja þær því. Ef tengja á vegaframkvæmdir sölu Landssímans þá hefur ekki orðið af því. Landssíminn er áfram eign þjóðarinnar, prýðileg eign sem bætir veðhæfni þjóðarinnar til að taka lán til framkvæmda þar sem af sölu hefur ekki orðið. Ég vildi nú spyrja að þessu.

Í öðru lagi eru það stórframkvæmdirnar. Ég hefði t.d. viljað sjá að vegurinn um Þverárfjall hefði komið inn sem stórframkvæmd og fjármagn ætlað í hann og vil spyrja hæstv. ráðherra um hann. Hver er staða vegarins um Þverárfjall? Verður hann flokkaður sem stórframkvæmd svo til hans fáist fjármagn til þess að keyra áfram þær umbætur? Ég hefði gjarnan viljað sjá það gerast.

Ég hefði líka viljað, virðulegi forseti, heyra af stefnumörkun eða tillögum af hálfu samgrn. varðandi niðurskurð í vegaframkvæmdum. Verður skorið niður í framkvæmdum við tengivegina, safnvegina eða sveitavegina? Má búast við því að niðurskurður í vegaframkvæmdum komi þar niður? Það eru nú ekki svo miklir fjármunir sem lagðir eru í safn- og tengivegi eða þessa svokölluðu sveitavegi, að þar sé tilefni til að skera niður. Ég minni á að í umræðunni um byggðamál var ekki hvað síst lögð áhersla á uppbyggingu vega innan sveita til að styrkja þar samgöngur svo hægara verðir að sækja skóla, atvinnu og sinna aðdrætti. Ég vildi heyra hjá hæstv. ráðherra hvort einhver slík tilmæli séu varðandi ráðstöfun fjár til vegaframkvæmda um að beina niðurskurði á það litla framkvæmdafé sem ætlað er til sveitavega, tengi- og safnvega.

Hið sama gildir um brýrnar. Það hefur verið lögð þung áhersla á það í umræðunni á síðustu missirum og árum að útrýma einbreiðum brúm og að herða þar frekar á en hitt, sérstaklega á hringveginum og hættulegum aðalleiðum þar sem mikil slysahætta hefur verið af. Er fyrirhugað að beita þessum niðurskurði sem hér er verið að tilkynna á þann þátt? Ég held að það skipti máli í þessari umfjöllun hvar niðurskurðurinn verður. Ég segi fyrir mig að ég er andvígur því að honum verði beitt til að fresta brúarframkvæmdum, fresta því að breikka einbreiðar brýr. Í vegaframkvæmdunum eru ákveðin atriði sem mér finnst við eiga að standa vörð um, t.d. breikkun á einbreiðum brúm og þessi niðurskurður komi ekki þar niður.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að bæta þessum atriðum við og spyrja hvort hæstv. samgrh. og ríkisstjórnin hefðu farið yfir efnahagsástandið, yfir stöðuna á verktakamarkaði, hjá þeim sem helst mundu taka að sér framkvæmdir í vegamálum. Hvernig er staðan á þeim markaði nú og gefur hún ekki tilefni til að endurskoða niðurskurðinn, m.a. í ljósi þessa og annarra atriða sem ég hef nefnt?