Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:24:24 (7325)

2002-04-09 17:24:24# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:24]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Jón Bjarnason, kom inn á mikilvægt mál, þ.e. einbreiðar brýr. Það er mikil þörf á að breikka þær á þjóðvegi 1. En þá kemur að fjármagninu. Ég vildi benda hv. þm. á að 80 millj. eru ætlaðar til girðingaframkvæmda meðfram þjóðvegum og 40 millj. til reiðvega. Telur þingmaðurinn að e.t.v. væri rétt að nota það fjármagn, sleppa girðingum meðfram þjóðvegum og reiðvegum, og taka þar 120 millj. til að flýta tvöföldun brúa á þjóðvegi 1? Eða hvernig eigum við að finna fjármagn til þess að fara í þær fjölmörgu framkvæmdir sem hv. þm. kom hér inn á og taldi mjög brýnar?

Ég er alveg sammála honum í því að mörg verkefni eru mjög brýn en þegar fjármagn er takmarkað þarf auðvitað að forgangsraða. Ég held að allir þingmenn séu að reyna að finna fleti á því að nokkur sátt megi ríkja um vegáætlunina sem hér er til umræðu.