Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:25:59 (7326)

2002-04-09 17:25:59# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:25]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að benda ítrekað á mikilvæga þætti í samgöngumálum og einmitt varðandi öryggismálin. Það er í sjálfu sér erfitt að gera upp á milli þeirra atriða sem hv. þm. var að nefna. Það sem ég var að leita eftir var hvort fyrirhugað væri að beita þessum niðurskurði á þær tiltölulega lágu upphæðir sem veittar eru til slíkra öryggismála, m.a. að girða af og verja veginn búfé og fækka einbreiðum brúm.

Ég minni á ágæta umræðu sem fram fór í gær um umferðaröryggismál þar sem lagt hefur verið fram metnaðarfullt frv. frá hæstv. dómsmrh. um að draga úr slysum í umferð á næstu árum. Það er metnaðarfullt frv. en með því verður ekki náð árangri nema umferðaröryggismálum verði forgangsraðað.

Ég vil spyrja hv. þm. á móti, sem ég geri ráð fyrir að hafi fylgst með umræðunni um umferðaröryggismálin í gær, hvort honum finnist þar einmitt ekki mikilvægt atriði í samgöngumálum sem ástæða væri til veita hærri sess við ráðstöfun á fjármagninu og verja ætti slíka þætti niðurskurði.