Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:27:46 (7327)

2002-04-09 17:27:46# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:27]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kom inn á öryggismálin. Það er einmitt kjarni málsins þegar spurt er: Af hverju ekki að hætta við girðingar meðfram þjóðvegi 1 og breikka frekar brýr? Þá kemur á móti að það er ákveðin hætta á ferðum ef við girðum ekki fyrir búpening meðfram þjóðvegi 1. Hið sama á við um reiðvegi. Það er mjög nauðsynlegt að koma hestamönnum og hrossum af þjóðveginum og við þurfum auðvitað fjármagn til að búa þeim brautir utan þjóðvega.

Eins og komið hefur fram áður eru um 26 milljarða tekjur af umferðinni. Við notum 11--12 milljarða af þeim til umferðarþáttarins. En stór hluti af því fer hins vegar í þann þátt öryggismála sem kannski er samfélagið, þ.e. hvernig við tökum á málum þegar slys verða. Það kostar fjármagn og hlýtur að vera eðlilegt að nýta þær tekjur sem verða af umferðinni til að koma til móts við hinn almenna skattborgara. Þá fjármuni hlýtur að mega nýta til að mæta þeim alvarlegu slysum sem verða í umferðinni. Þá komum að enn öðru sem er þyrla Landhelgisgæslunnar. Um hana er yfirleitt rætt sem björgunartæki sjómanna en hún er í fleiri tilvikum nýtt hér uppi á landi, vegna slysa í umferð og m.a. vegna erlendra túrista sem klífa fjöll. Þegar við tökum að spinna allan þennan vef ber okkur niður á ólíklegustu stöðum.