Vegáætlun fyrir árin 2000--2004

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:35:58 (7330)

2002-04-09 17:35:58# 127. lþ. 115.15 fundur 680. mál: #A vegáætlun fyrir árin 2000--2004# þál. 28/127, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og þær ágætu undirtektir sem eru við það frv. sem hér er til umfjöllunar, þ.e. endurskoðun á vegáætlun. Ég vil fara nokkrum orðum um það sem hér hefur komið fram sem er út af fyrir sig ekki efnislega mikið sem þarf að svara eða gera athugasemdir við, en þó vil ég gera nokkur atriði að umtalsefni.

Fyrst um það sem hv. þm. Jón Bjarnason sagði að væri röng nálgun að leggja fram þessa breytingu sem nær eingöngu til ársins í ár. Ég vil aðeins rifja það upp að hér er um að ræða hlut sem ekki verður undan vikist vegna þess að eins og fram hefur komið erum við að ganga inn í miklar breytingar sem fylgja lögum um samgönguáætlun, sem ég vona að verði að lögum á næstu sólarhringum. Lögin um samgönguáætlun gera ráð fyrir að í haust verði lagt fram frv. til nýrrar áætlunar sem leiðir það af sér að óhjákvæmilegt er að gera þá breytingu að taka eingöngu árið í ár. Það hefði í rauninni verið mjög óeðlilegt ef við hefðum farið að leggja fram núna fjögurra ára vegáætlun og umturna henni síðan í haust. Með því að samræma áætlanir, hafnaáætlun, vegáætlun, flugmálaáætlun og jarðgangaáætlun erum við að leggja upp með algerlega nýtt vinnulag og þess vegna er það ekki röng nálgun að leggja fram áætlun til eins árs við þær aðstæður.

Hv. þm. Jón Bjarnason gagnrýndi seinagang við undirbúning jarðgangaframkvæmda. Ég ætla að fara nokkrum orðum um það.

Hvers vegna þurfum við að undirbúa og nota mikinn tíma í undirbúning framkvæmda við jarðgöng? Hér er um mjög stórar framkvæmdir að ræða sem þurfa m.a. að fara í gegnum umfangsmikið ferli umhverfismats. Og ég er mjög undrandi á því ef hv. þm. Vinstri grænna hafa á móti því að slíkt fari í gegnum vandað ferli umhverfismats, framkvæmdir eins og í Héðinsfirði. Þetta þarf allt saman langan tíma, langan aðdraganda, hönnun og undirbúningur, og ég tel að það sé allt með eðlilegum hætti, fyrir utan það að þetta eru svo stórar framkvæmdir sem um er að ræða að þær þurfa að fara í útboð á hinu Evrópska efnahagssvæði. Því er um eðlilegan framgang að ræða.

Hv. þm. Jón Bjarnason velti fyrir sér stöðunni á verktakamarkaðnum og ræddi um hvort ekki væri hægt að hraða framkvæmdum, bæta í fremur en að draga úr vegna þess að áform um framkvæmdir við virkjanir og stóriðju drægjust eitthvað. Þess er nú ekki farið að gæta enn á þessu ári og minnast má þess að við erum að fjalla um framkvæmdir á árinu 2002. Ekki hafði verið gert ráð fyrir mjög miklum framkvæmdum við virkjanir á þessu ári, þannig að ég held að forsendur fjárlaga sem við byggjum á við endurskoðun á vegáætlun standist hvað þetta varðar. Við töldum nauðsynlegt að draga úr ríkisútgjöldum til þess að styrkja stöðu ríkissjóðs og afkomu hans og það er sú viðmiðun sem við þurfum að hafa inn í þetta ár.

Hv. þm. fjallaði nokkuð um Þverárfjallsveg og velti fyrir sér hvort hann væri partur af stórverkefnum. Svo er ekki. Þverárfjallsvegur var fjármagnaður með framlögum af almenna vegafénu úr kjördæminu, Norðurl. v., og hins vegar sérstökum framkvæmdum. Hins vegar er Norðurárdalsvegurinn hluti af stórverkefnaframkvæmdunum. Skiptingin er því þannig.

Þingmaðurinn velti fyrir sér frestun framkvæmda undir liðunum safnvegir og tengivegir. Það er nú mjög undir því komið hvernig þingmenn hvers kjördæmis stilla þessu upp, því það mun koma í hlut þingmanna kjördæmanna að leggja upp áformin um framkvæmdir þannig að af hálfu samgrn. er ekki lögð nein lína um það að dregið verði úr framkvæmdum við einn vegaflokk umfram annan. Það verður því algjörlega á ábyrgð og í höndum þingmanna kjördæmanna að gera tillögur um það til samgn.

Sama er um brúarframkvæmdir. Ekki eru nein sérstök áform um frestun þeirra, en það kemur í hlut þingmanna kjördæmanna að líta til þess.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór nokkrum orðum um tekjuöflun og nefndi sérstaklega það sem hv. þm. Kristján L. Möller tók upp, að slaka á tekjuöflun vegna Vegasjóðs. Og vissulega er rétt að það hefur ekki alveg fylgt verðlagi, en við höfum ekki treyst okkur til þess að hækka tekjur til vegagerðar umfram það sem við höfum gert samkvæmt fjárlögum og það er auðvitað skýringin á þeim slaka.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi tekjur vegna eignasölu og gagnrýndi það að hengja það saman. Ég tel að sérstaklega fyrir þau margvíslegu verkefni sem eru út um landið, svo sem eins og jarðgöng, þá hljóti það að vera af hinu góða í augum þingmanna sem hafa áhuga á framkvæmdum við jarðgöng að nýta fjármuni vegna eignasölu vegna þess að það er af mörgu að taka til að nýta tekjur ríkissjóðs. Ég er því ekki sammála þingmanninum að það sé neikvætt.

Það kom út af fyrir sig ekki margt fleira fram sem ég tel ástæðu til að gera að umtalsefni. Ég vil því í lokin endurtaka að ég þakka fyrir undirtektir þingmanna við afgreiðslu þessarar áætlunar og vænti þess að hv. samgn. taki til við að vinna og ljúka við áætlunina, þannig að okkur megi takast sem allra fyrst að afgreiða hana á þessu vori.