Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 17:59:34 (7333)

2002-04-09 17:59:34# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, KLM
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[17:59]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Hæstv. samgrh. hefur fylgt úr hlaði till. til þál. um flugmálaáætlun sem í raun hefði átt að vera, eins og venja er til, fyrir næstu fjögur ár en er gerð til eins árs í takt við það sem við ræddum um áðan í tengslum við vegáætlun.

Það þarf auðvitað ekki að taka það fram en þó er rétt að halda því til haga að þetta er náttúrlega gert vegna breytinga sem er verið að undirbúa, þ.e. að búa til eina stóra samgönguáætlun, að sníða þessar áætlanir sem við þurfum að gera núna til að geta gert samræmda samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014, með fjögurra ára áætlun fyrir árin 2003--2006. Ég hef áður lýst yfir stuðningi við málið eins og það liggur fyrir og vænti þess að umræðunni um það ljúki hér á eftir. Hér er eingöngu verið að ræða um áætlun fyrir 2002 og eins og kom fram í ræðu hæstv. samgrh. er bagalegt að 2003 og 2004 skuli ekki vera þarna inni. En það kom líka fram að í nál. samgn. komi fram áætlun til þess að ekki skapist óvissa um framkvæmdir næstu ára eða útboð á þessu ári sem nái yfir næsta ár einnig.

[18:00]

Þetta er eins og ég segi, herra forseti, í takt við það sem við höfum verið að ræða um vegáætlun og þarf ekki að ræða frekar, þetta er sjálfsögð aðlögun. Í raun og veru má segja að umræðan, hin stóra og mikla umræða um hvort sem er vegáætlun, flugmálaáætlun, sem mun þá væntanlega heita samgönguáætlun frá og með næsta hausti, frestist fram á næsta haust.

Í þeirri till. til þál. sem hér er flutt er þetta á hefðbundinn hátt, nema hér er sett inn upphæð upp á frestun framkvæmda um 68 millj. kr. sem er lítil upphæð af þeim 3,4 milljörðum sem í áætluninni eru. Þær miklu framkvæmdir sem staðið hafa yfir á Reykjavíkurflugvelli taka auðvitað langmest af þeim peningum og lántaka upp á 331 millj. sem þar kemur inn er einnig hér inni.

Um tekju- og gjaldahliðina þarf ekki að ræða mikið. Þetta er á hefðbundinn hátt. Tekjur af alþjóðaflugþjónustunni eru tæpar 1.400 millj. kr. sem sýnir hversu mikilvæg hún er íslensku atvinnulífi, hve sú alþjóðaflugþjónusta er mikilvæg í samgöngumálum okkar Íslendinga í raun og veru. Í ræðu hæstv. samgrh. kom fram um þau mál sem ESA er að fjalla um, þ.e. um mismuninn á flugvallagjaldinu milli millilandaflugs og innanlandsflugs, eða 1.250 kr. í millilandafluginu og 165 kr. í innanlandsflugi, að vissulega setur það þetta mál mjög í uppnám. Ég ætla rétt að vona að ekki komi til sá niðurskurður að við þurfum að fara að hækka slíkar álögur á innanlandsflugið, nóg kostar innanlandsflugið í dag samt sem áður, farseðlarnir, og nógu mikill er nú taprekstur flugfélaganna við að sinna þessu.

Hér kemur hins vegar fram, herra forseti, að til verkefnisins Viðhald og styrkir eða Viðhaldssjóðir, eru eingöngu ætlaðar 17 millj. kr. Í skýringum kemur fram að sú upphæð þyrfti að vera 50--60 millj. kr. Þetta er mjög bagalegt og við höfum rætt það hér áður. Þetta er m.a. að mig minnir vegna tilflutnings á peningum frá þessum lið til öryggismála í fluginu. En fram kemur hér að sú upphæð þyrfti að vera 50--60 millj. kr. á ári í þau venjubundnu viðhaldsverkefni sem eru tengd malbiki, klæðningu og málningu á flugbrautum og auðvitað er þetta allt of lág upphæð.

Einnig kom fram að við skulum sannarlega búa okkur undir það að við munum fá á okkur miklar og harðar kröfur frá alþjóðaflugsamfélaginu ef svo má að orði komast vegna flugverndar. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þessi mál eru öll á fleygiferð út um allan heim eftir hin miklu hryðjuverk sem framin voru 11. september. Ef það verður virkilega þannig eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. ráðherra, að árlegur kostnaður Íslendinga gæti aukist um 300--400 millj. kr. vegna þessa, þá er nú rétt að halda því aðeins til haga hvað hin hryllilegu hermdarverk sem framin voru 11. september muni kosta alþjóðasamfélagið.

Herra forseti. Í sambandi við framkvæmdir á einstökum flugvöllum er þetta rætt og rætt er um Reykjavíkurflugvöll og að útlit er fyrir að þær framkvæmdir fari 115--120 millj. kr. fram úr áætlun. Hér er einnig rætt um framkvæmdir á Akureyrarflugvelli við að endurnýja búnað í flugturni og skipta um stjórnbúnað í flugturni til að bæta þar vinnuaðstöðu og það er vel. Við sem ferðumst mikið út á land höfum auðvitað orðið vör við þær miklu breytingar sem gerðar hafa verið á flugstöðinni á Akureyri, sem ég tel að hafi tekist ákaflega vel, þó þær séu ekki endanlega búnar. Það sem þar hefur verið gert er til mikillar fyrirmyndar. Hins vegar verður að halda því til haga að deiliskipulag á svæðinu hefur ekki verið gert og ég held að ekki sé hægt að fresta því lengur, enda er gert ráð fyrir 3 millj. kr. í þann lið á árinu 2002, þó ég hafi nú ákveðnar efasemdir um að mikið verði gert fyrir þær upphæðir til að vinna slíkt deiliskipulag, en það er ákaflega brýnt að vinna það til þess að hanna megi og byggja vélageymslu sem er ákaflega mikilvægt.

Þess má einnig geta í sambandi við flugöryggisútbúnaðinn að aðflugsratsjáin sem staðsett er rétt hjá flugvellinum er orðin 27 ára gömul og er því komin til ára sinna. Hún var þó aðeins bætt með breyttri skiparatsjá. Þetta er útbúnaður sem er ekki í takt við nútímann og gerir það m.a. að verkum að þessi ratsjá á stundum erfitt með að greina í sundur endurkast frá flugvélum eða endurkast frá úrkomuskýjum, svo því sé nú haldið til haga. Auðvitað er þetta ófremdarástand sem þarf að bæta.

Það er rétt, það er sannarlega slæmt ef ekki verður hægt að hefja næturflug til Ísafjarðarflugvallar, það er auðvitað bagalegt.

Um ýmsar aðrar framkvæmdir sem settar eru hér upp er mikið rætt og sýnt fram á það sem gera á. Jafnframt fylgir með flokkun flugvalla sem við ræddum ekki alls fyrir löngu í tilefni af umræðu um samgönguáætlun. Ég hika ekki við að halda því fram að varðandi Grímseyjarflugvöll, Vopnafjarðarflugvöll og Gjögurflugvöll þarf auðvitað að taka á. En ég ætla ekki að lengja umræðuna vegna þess að við ræddum vanda þeirra flugvalla við samgönguáætlunargerðina, og þau svör sem þá komu frá hæstv. samgrh. fannst mér mjög góð og sýna það og sanna að hæstv. samgrh. hefur skilning á því að samgöngum við þá staði, hvort sem það er við Gjögur, Grímsey eða Vopnafjörð, verður ekki með góðu móti haldið uppi nema með öruggum og góðum flugsamgöngum.