Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:16:05 (7335)

2002-04-09 18:16:05# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:16]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um till. til þál. um flugmálaáætlun árið 2002. Ég vil bæta örfáum orðum við þessa umræðu. Langstærsti pósturinn er auðvitað Reykjavíkurflugvöllur og mig langar til að segja nokkur orð um uppbygginguna á honum. Við sem búum úti á landi gerum okkur öll grein fyrir gríðarlegu mikilvægi flugvallarins fyrir okkur öll og fyrir ferðaþjónustuna í landinu. Ég sakna þess að sjá hér ekki meiri umfjöllun um umhverfisþætti Reykjavíkurflugvallar. Ég vil brýna hæstv. samgrh. að taka þau mál mjög föstum tökum vegna þess að eins og við vitum er gríðarlega umdeilt hvort flugvöllurinn eigi að vera hér í borginni eða ekki. Ég tel að fyrir okkur sem viljum stuðla að því að hann sé hér sem lengst eigi ekki að bíða með að fara í umhverfisþátt vallarins. Ég tel að til lengri tíma litið verði það til að styrkja stöðu hans og með því geti fleiri sætt sig við að hann verði hér í miðju borgarinnar ef við gerum myndarlegt átak í þessum stóru framkvæmdum og fylgjum því vel eftir.

Við vitum öll að stór hluti þeirra sem eru á móti vellinum hefur verið á móti vallarstæðinu vegna ástands umhverfismála umhverfis brautirnar, kannski sérstaklega hér við norðurhlutann þar sem ekki hefur verið gengið frá. Þó má segja að úr þurfi að bæta allt í kringum völlinn. Þetta er gríðarlega vandasamt verk og þarf að hanna þetta mjög vel til að vel fari. Ég er alveg sannfærður um það, út frá eigin reynslu í þessum málum, að það verður miklu meiri sátt um að svona mannvirki geti verið þarna til frambúðar ef gengið verður í þessi mál af myndarskap og flugvellinum sem fyrst gefin sú umgjörð sem hann þarf, þar sem hann er nánast inni í borginni.

Ég vildi einkum koma þessu á framfæri. Það er ekki að sjá að farið sé að huga sérstaklega að þessum málum. Gert er ráð fyrir upphæð til að fara í hönnun á nýrri flugstöð, sem er mjög mikilvæg. Ég held eitt mikilvægasta málið sé líka að fljótt og vel verði staðið að uppbyggingu á flugstöðvarbyggingu á Reykjavíkurflugvelli. Við sem förum oft um þennan flugvöll vitum þetta öll, þó að við séum kannski samdauna ástandinu. Það eru helst gestir sem benda manni á hversu hræðilegt ástand er þarna orðið.

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé mjög mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina, bæði fyrir okkur Íslendinga sem notum þetta mikið og ekki síður ferðaþjónustuna. Umhverfismál flugbrautarinnar í borgarlandinu ráða hvað mestu um hvort hinn almenni borgari getur sætt sig við slíkt umferðarmannvirki innan borgarmarkanna. Ég vildi undirstrika þetta.

Síðan er í áætluninni --- ég er ánægður með það --- farið nokkrum orðum um kaup á vopnaleitarbúnaði til notkunar á áætlunarflugvöllum þar sem millilandaflug er stundað, vegna leitar á farþegum og í handfarangri. Til þess eru ætlaðar 20,2 millj. Þá gerir maður fyrst og fremst ráð fyrir að um millilandaflugvellina á Egilsstöðum og Akureyri sé að ræða. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort málum sé ekki þannig komið að engar hindranir verði fyrir því að þjóna millilandaflugi á þessum tveimur völlum. Eins og hæstv. ráðherra veit hafa sveitarfélögin við Eyjafjörð, Akureyri og sveitarfélögin þar og náttúrlega Héraðsbúar, lagt gríðarlega mikið af mörkum til að koma á millilandaflugi. Sú staða má ekki koma upp að tæknibúnaður af einhverju tagi hindri að hægt sé að fljúga inn á þessa staði. Það er mjög mikilvægt, með tilliti til hagsmuna landsbyggðarinnar, að þannig sé búið um hnútana að á engan hátt verði hægt að benda á hnökra í þjónustunni á Egilsstaðaflugvelli og á Akureyri. Það eru einkum þessi mál sem ég mundi vilja brýna hæstv. samgrh. með, að þannig verði staðið að málum að afgreiðslan geti verið eðlileg og þurfi ekki að steyta á þeirri þjónustu sem nauðsynleg er á þessum tveimur völlum.

Það verður flogið frá útlöndum til Egilsstaðaflugvallar í sumar. Það er náttúrlega alltaf eitthvað um það að vélar komi frá útlöndum inn á Akureyrarflugvöll, síðast núna um daginn. Það er okkur á landsbyggðinni mjög mikilvægt að þessir tveir vellir séu þannig úr garði gerðir að þeir geti þjónað þessari umferð.

Virðulegi forseti. Ég held að aukin áhersla á umhverfismál Reykjavíkurflugvallar yrði til þess fallin að auka sáttina um að þetta nauðsynlega mannvirki fyrir okkur landsbyggðarfólk geti verið þarna áfram. Það þarf að fara í það mál af myndarskap til þess að sýna fólki á höfuðborgarsvæðinu að flugvöllur inni í borg þarf ekki að vera lýti á borginni. Það er til mikils hagræðis eins og allir vita sem úti á landsbyggðinni búa, að þessi möguleiki sé fyrir hendi hér.

Ég þarf ekki að vitna í hugmyndir ferðaþjónustuaðila í þessu sambandi. Það hafa verið ritaðir þykkir doðrantar um mikilvægi og nauðsyn Reykjavíkurflugvallar til að þjóna ferðaþjónustunni eða undirbyggja hana á landsbyggðinni. Ég vildi koma þessum punktum alveg sérstaklega að í umræðunni, virðulegi forseti, og læt máli mínu lokið.