Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:26:43 (7338)

2002-04-09 18:26:43# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar ágætu umræður sem hér hafa orðið um flugmálaáætlun og ágætar undirtektir við þau áform sem hún felur í sér þó að það sem við erum að fjalla um hér nái einungis til eins árs.

Sérstaklega vil ég fagna því sem kom fram hjá hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að fá þann stuðning sem fram kom í hans ræðu gagnvart Reykjavíkurflugvelli. Ég vil nú hvetja hv. þm. til þess að halda nokkrar ræður yfir forsvarsmönnum R-listans hér í Reykjavík og sérstaklega þeim hópi sem tilheyrir Vinstri grænum. Það þyrfti svo sannarlega að rétta kúrsinn hjá þeim þegar litið er til afstöðu þeirra til Reykjavíkurflugvallar. Formaður skipulagsnefndar borgarinnar skipti t.d. um skoðun í miðju kafi gagnvart uppbyggingu Reykjavíkurflugvallar sem þekkt var. Ég held að hv. þm. ætti að halda fyrirlestur um það sem fram kom í ræðu hans fyrir forsvarsmenn borgarinnar.

Hv. þm. nefndi sérstaklega, sem er alveg rétt, að það er afar mikilvægt að huga að umhverfismálum Reykjavíkurflugvallar og að því er unnið. Samkvæmt flugmálaáætlun gerum við ráð fyrir framkvæmdum við að girða af flugvöllinn og ganga sem best frá því og ýmsu öðru. Eins og sakir standa má búast við að eitthvað verði eftir til næsta árs og um það verður fjallað í haust þegar samgönguáætlun verður lögð fyrir þingið. Þá verður að taka afstöðu til þess hversu miklir fjármunir verði lagðir í lokafrágang við Reykjavíkurflugvöll vegna þeirra framkvæmda sem hafa staðið yfir.

Það er afar mikilvægt að umhverfi flugvallarins sé vel frágengið, sé okkur til sóma og ekki lýti á borgarmyndinni eins og verið hefur í áratugi, mannvirki, hús og frágangur flugvallarins hefur verið fjarri öllu lagi. Nú stendur þetta hins vegar allt saman til bóta. Samkvæmt flugmálaáætlun er gert ráð fyrir að ljúka öllum framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll, ekki seinna en á næsta ári og hljóta ýmsir að fagna því.

Þá kem ég að öðru atriði sem hv. þm. nefndi, flugstöðinni við Reykjavíkurflugvöll. Hún þarfnast að sjálfsögðu endurbóta og það er sérstakur hópur undir forustu Leifs Magnússonar, fyrrum formanns flugráðs og framkvæmdastjóra hjá Flugleiðum, sem vinnur að í því að leggja á ráðin um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll, sem sinnt gæti bæði flugi og öðrum samgönguþáttum á svæðinu. Ég bind miklar vonir við tillögurnar frá þeim hópi en allt sem þar yrði gert mundi að sjálfsögðu byggjast á því að flugvöllurinn geti orðið einhvern tíma áfram í mýrinni. Það er því af mörgu að taka í þessum efnum.

Hv. þm. ræddi um hindranir vegna millilandaflugs til Akureyrarflugvallar og Egilsstaðaflugvallar, nauðsyn þess að tryggja þær séu ekki til staðar. Ég rifjaði það upp í framsöguræðu minni fyrir tillögunni að á vegum Evrópusambandsins --- væntanlega mun það einnig gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði --- er verið að vinna að flugverndarmálum og unnið að því að setja upp regluverk vegna flugverndar. Það mun taka til hins íslenska svæðis og hinna íslensku flugvalla. Það mun væntanlega hafa í för með sér kostnað upp á 300--400 millj. ef þær tillögur verða að veruleika, þ.e. 300--400 millj. á ári að halda úti þeim öryggisþáttum sem ráð er fyrir gert í innanlandsfluginu. Hér er því um mjög stórt mál að ræða sem væntanlega kemur fram í samgönguáætluninni í haust. Ég minni á þetta og vísa til þess að ákveðin upphæð hefur verið sett í að undirbúa þetta mál í áætlun fyrir árið í ár. En í haust verðum við að fjalla um og taka afstöðu til úrbóta sem gera þarf til að tryggja að öllum reglum sé framfylgt í innanlandsfluginu og í millilandafluginu á þeim flugvöllum sem flogið er til á landinu, sérstaklega á Akueyri og Egilsstöðum. Þarna er um stórmál að ræða sem þarf að huga að.

Ég held að sé ekki fleira sem ég þarf að svara hér. Ég má til með að vekja athygli á að í umræðum hér í dag, sem hafa verið ágætar, bæði um vegáætlun og flugmálaáætlun, hefur nú eins og fyrri daginn farið mest fyrir þingmönnum annarra kjördæma en höfuðborgarsvæðisins. Einungis einn hv. þm., formaður samgn., af höfuðborgarsvæðinu hefur tekið þátt í þessari umræðu.

En það sem hefur hins vegar vakið athygli mína síðustu vikurnar er að einn þingmaður fyrir utan hv. þm., formann samgn., hefur rætt sérstaklega við mig um framkvæmdir við samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu. Það er hv. þm. Björn Bjarnason, sem leggur alveg upp í samræmi við það sem hann hefur sýnt í verkum sínum. Hann hefur rætt við mig sérstaklega, m.a. um framkvæmdir í vegamálum hér á höfuðborgarsvæðinu. (Gripið fram í: Fólk hlær að þessu.) Hann hefur m.a. rætt við mig, og vildi ég nefna það hér, um að flýta framkvæmdum við hin miklu gatnamót við Stekkjarbakka. Það sýnir bara hvaða tökum sá ágæti þingmaður ætlar að taka nýtt verkefni. Ég vil að það komi alveg sérstaklega fram við þessa umræðu. Ég hefði satt að segja búist við því að fleiri af þingmönnum höfuðborgarsvæðisins kæmu til umræðu um flugmálaáætlun og vegáætlun.