Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:36:05 (7340)

2002-04-09 18:36:05# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:36]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara hv. þingmanni.

Ég hef lýst því sem afstöðu minni að æskilegast væri að Reykjavíkurflugvöllur þjónaði innanlandsfluginu áfram. Sá kostur sem er til staðar ef Reykjavíkurflugvöllur verður að víkja úr Vatnsmýrinni er að nýta Keflavíkurflugvöll. Ég tel ekki koma til álita að fara að byggja þriðja flugvöllinn einhvers staðar í hraununum milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar með öllum þeim kostnaði sem því fylgir að byggja upp aðstöðu flugvallar, með aðflugs- og tæknibúnaði og allri aðstöðu sem flugfélögin og þjónustufyrirtæki sem eru við flugvöllinn þurfa að koma sér upp. Kostirnir í mínum huga eru því einungis tveir, annaðhvort Keflavíkur- eða Reykjavíkurflugvöllur.