Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:39:16 (7343)

2002-04-09 18:39:16# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:39]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem í andsvar vegna orða hæstv. samgrh. um R-listann og Reykjavíkurflugvöll. Ég held að ef við horfum raunsætt á stöðuna og fram hjá því að sveitarstjórnarkosningar eru á döfinni sé staðan bara þannig í borginni að mjög deildar meiningar eru um þetta verk. Þess vegna var framsetning mín þess eðlis að við þyrftum öll að snúa bökum saman sem gerum okkur grein fyrir nauðsyn vallarins og beita öllum ráðum til að gera hann eins vel úr garði og hægt er til þess að alls staðar verði sátt um hann. Það var það sem ég vildi undirstrika.

Samkvæmt skoðanakönnunum hallar ekki á ef við tölum um fylkingar í þessu efni. Þannig er staðan í borginni. Og hluti af þessari andstöðu er vegna þess hvernig umhverfi vallarins hefur verið öll þessi ár. Ég tel að með því að gera þetta vel úr garði --- ég hef reynslu af því, ég kom að því að setja Akureyrarflugvöll inn í óshólmasvæði Eyjafjarðarár á sínum tíma --- verði afstaða hjá almenningi gagnvart slíkum verkefnum öll önnur.