Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:46:28 (7349)

2002-04-09 18:46:28# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:46]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra um nauðsyn þess að bæta flugaðstöðuna á Þingeyri. En engu að síður ætti þegar í stað að vera hægt að kanna hvort forsendur væru fyrir næturflugi þangað eða hvað þarf til að svo megi verða, því það er umgjörðin, fjallahringurinn og önnur slík umgjörð sem þar getur ráðið. Að mínu viti væri hægt að fara í að kanna það þegar í stað og ég er reyndar hissa á að það skuli ekki hafa verið gert.

Í lokin varðandi hrifningu hæstv. samgrh. af flokksbróður sínum, Birni Bjarnasyni, og að hann skuli velja hér vettvang til að hjálpa honum í kosningabaráttunni, þá velti ég fyrir mér hvort hæstv. samgrh. hafi átt viðræður við hann um einkavæðingu samgöngukerfisins á höfuðborgarsvæðinu, því hv. þm. Björn Bjarnason er jú þekktur af sínum mikla einkavæðingaráhuga og hvort hann hafi líka verið að ræða það hvernig hann gæti tekið vegaspotta og sett upp tollverði á hinum einstöku brúm til þess að innheimta brúartolla og einkavæða þetta, hvort það hafi nokkuð borið á góma í umræðu þeirra félaga.