Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 20:32:38 (7358)

2002-04-09 20:32:38# 127. lþ. 115.14 fundur 670. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# (norsk-íslenski síldarstofninn) frv. 50/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[20:32]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, með síðari breytingum. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. við 1. umr. en vil þó segja að við vonum jú öll að norsk-íslenski síldarstofninn hressist og að við getum áður en allt of langt um líður upplifað svipað göngumunstur síldarinnar og þegar best lét. Kannski erum við að tala um töluvert stórt mál þegar við leggjum drög að því að úthluta aflahlutdeild á grunni veiðireynslu. Ég vil bara velta því upp af því að fleiri hv. þm. hafa komið inn á það mál, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson. Ég held að við verðum að skoða það við umræðuna í hv. sjútvn. að hér er náttúrlega verið að festa gríðarlega mikil verðmæti, ég tala ekki um ef vel fer að ganga.

Ég vil líka taka undir það sjónarmið hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar að auðvitað er ekki sjálfgefið að menn eigi að geta gengið að þessu á þennan hátt, sérstaklega ef við erum sannfærð um að á næstu árum skapi síldin mikil verðmæti. Auðvitað verða í síldinni meiri verðmæti eftir því sem hún kemur nær ströndinni og gengur vestar, eins og var, og fitnar meira. Þá erum við að tala um gríðarlega atvinnuuppbyggingarmöguleika í öllum sjávarbyggðum, vonandi frá Húnaflóa og austur eftir og suður um, þannig að hér erum við e.t.v. að tala um stóra og mikla hluti. Ég held því að við verðum að skoða hvort það er rétt leið núna í stöðunni að fara út í aflahlutdeildarúthlutun, hvort ekki væri enn um sinn betra að notast við kvótaúthlutun meðan við erum að átta okkur á stöðunni og hvernig þetta gengur fyrir sig.

Svo finnst mér að alveg megi skoða það, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni, hvort ekki sé ráð að menn skili þá inn í hlutfalli öðrum heimildum á móti ef menn fá slíkar úthlutanir með aflahlutdeild og það fer að ganga betur. En það verður farið í gegnum þetta allt í hv. sjútvn. og við þurfum bara að skoða þau mál. Hér og nú er ekki tilefni til að fara ítarlega í málið. Auðvitað vonum við öll að síldin taki upp sitt fyrra göngumunstur og að við getum átt von á því að fá hana upp að landi, vestur um eftir Norðurlandi, og eigum möguleika á að veiða kannski miklu meira úr þessum stofni.

Það eru önnur mál sem við þurfum líka að skoða í nefndinni þó að þau tengist ekki þessu frv. Mönnum finnst núna, miðað við reynslu síðustu ára, að við höfum kannski samið af okkur gagnvart Norðmönnum um að eiga ekki möguleika á að veiða meira í lögsögu þeirra. Á þeim tíma sem samningurinn um veiðarnar var gerður stóðu menn hins vegar í þeirri trú að ekki yrði fýsilegt fyrir íslenska útgerðarmenn að veiða við Noreg.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. núna, við förum með það í hv. sjútvn. og tökum það til umfjöllunar þar.