2002-04-09 21:06:31# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur margkomið fram af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar að við höfum fengið möguleika til að leggja okkar af mörkum til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum með því að gera það mögulegt að nýta hreina orku í því sambandi. Það er það stóra í þessu máli.

Að því er varðar aðra þætti hefur verið sett upp áætlun um þá og er verið að vinna að henni. Við höfum ýmsa möguleika í samgöngukerfi okkar að því er varðar breytta tækni. Við erum hins vegar mjög háð umferð á vegum, getum t.d. ekki nýtt okkur rafmagnsjárnbrautir með sama hætti og ýmsar stærri þjóðir. Við höfum möguleika á að draga úr mengun af hálfu fiskiskipaflota okkar með áframhaldandi hagræðingu í sjávarútveginum og með því að viðhalda í öllum meginatriðum því kvótakerfi sem við höfum komið á sem er þess eðlis að það dregur úr mengun. Þetta eru mjög mikilvægir þættir.

Ég er fyrir mitt leyti stoltur af því hvernig við höfum staðið að þessu máli. Ég tel að Íslendingar geti með miklu stolti horft framan í umheiminn í þessu máli og það er leitt til þess að vita að þingmenn Vinstri grænna skuli nota hvert tækifæri til að reyna að eyðileggja áform um uppbyggingu íslenskra atvinnuvega, ekki bara hér innan lands heldur líka í málum sem varða baráttu okkar á alþjóðavettvangi. Það er alveg sama hvað við reynum í þessu sambandi, þau finna hvert einasta mál til að reyna að koma í veg fyrir þetta. Sem betur fer tókst það ekki í þessu máli.