2002-04-09 21:46:49# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi aðeins benda hv. þingmönnum sem hafa verið að ræða um stefnumörkun ríkisstjórnarinnar á það að þessi stefnumörkun er prentuð sem fylgiskjal í þessari tillögu á bls. 32--38. Þar kemur skýrt fram á bls. 34 hver er spá um meðalútstreymi frá árunum 2008--2012. Útstreymisheimild Íslands er 3.200 tonn og það er gerð sú áætlun að við gætum náð þeim árangri að vera innan þeirra marka, eða í 3.000 tonnum, með því að halda áfram því mikla landgræðslu- og skógræktarstarfi sem hefur m.a. verið hafið í tíð núverandi ríkisstjórnar af miklum krafti og stefna mörkuð í því sambandi. Jafnframt kemur fram áætlun um stóriðjuna þar sem við gerum ráð fyrir því að vera innan þeirra marka sem við höfum samið um. Þessi stefnumörkun kemur því mjög skýrt fram í þessu sambandi. Þar er rakið hver spáin er að því er varðar samgöngungar, hver spáin er að því er varðar iðnaðinn og fiskiskipin og annað sem máli skiptir í þessu sambandi. Því er beinlínis rangt að hér sé ekki hugað vel að framtíðinni.

Að því er varðar sjálfbæra þróun sem hv. þm. telur að ég skilji ekki þá læt ég mér það í léttu rúmi liggja. Ég flutti hér ræðu við umræðu um utanríkismál þar sem ég gerði það mál að sérstöku umtalsefni. Þar kemur fram skilningur minn á því máli. Hvort sá skilningur sé í andstöðu við alþjóðaskilgreiningar í þessu sambandi þá held ég svo ekki vera. En ég ætla ekki að fara í neina samkeppni við hv. þm. um það að hann skilji hlutina vel og kunni þá vel en sá sem hér stendur viti ekkert í sinn haus.