2002-04-09 21:49:08# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:49]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Það er þessi nálgun á málinu að halda sig innan marka þegar pólitísk stefna er að draga úr og vinna sig inn í ákveðið ferli. Þar skilur á milli. Ég benti á í ræðu minni hvernig við í atvinnulífinu erum ekki að vinna að því að draga úr eins og mér fyndist að við ættum að gera. Fyrir mér er sú friðþæging að halda sig innan markanna ekki nægjanleg. Mér er sú nálgun ekki hugnanleg, þó svo ég skilji sjónarmið hæstv. utanrrh. hvað þetta varðar.

Ég benti á samgöngurnar sem dæmi um stórmál á þessu sviði þar sem við höfum undirgengist skuldbindingar, yfirlýsingar og sáttmála um að draga úr mengun af völdum samgangna. Samt hafa þær, eins og ég sagði áðan, aukist um 10% á síðustu tíu árum. Samt sem áður er í þessu lagafrv. um samgönguáætlun ekki minnst einu orði, þ.e. í lagatextanum, á þessa mikilvægu stefnumörkun sem allar þjóðir eru uppteknar af. Við heyrðum t.d. síðast í fréttum í gær um flugið að settur yrði mengunarkvóti á flugið. Allar þjóðir eða alla vega þjóðir í nágrenni okkar eru því uppteknar af þessari umræðu um mengun frá samgöngum. En samt er ekki minnst einu orði á það hér í stefnumarkandi frv. til laga um samgöngur. Ég sakna þess að sjá ekki áherslur í þá veruna hér innan lands.