2002-04-09 22:11:44# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:11]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að tala um fyrirtæki sem hafa verið að byggja sig upp fram á þennan dag. Við erum að tala um fyrirtæki sem verða að byggja sig upp áður en þetta fyrsta tímabil gengur í garð. Líka er rétt að það komi fram að verið er að vinna í tilskipun á vegum Evrópusambandsins á þessu sviði. Þó að við getum ekki haft nægileg áhrif á hana vegna þess að við höfum ekki sama aðgang að vinnunni og Evrópuríkin verðum við væntanlega að taka hana til umfjöllunar hér þegar þar að kemur. Í þessu uppkasti að tilskipun er gert ráð fyrir því að stóriðjan sé undanskilin. Eigum við þá að ganga lengra en Evrópusambandið til að gera þessum fyrirtækjum ómögulegt að starfa hér á landi?

Nú kann það að vera þóknanlegt þeim sem eru andvígir öllum áformum í þessu, hvort sem það er álver á Austurlandi, stækkun Ísals í Hafnarfirði eða stækkun Norðuráls í Hvalfirði. Það kann að vera. En er ekki rétt að gera það með öðrum hætti og vera þá bara á móti þeirri uppbyggingu? Þarf endilega að vera að búa til einhverja sérstaka skattpíningarstefnu hér á landi til að gera þessum fyrirtækjum ómögulegt að starfa umfram það sem gildir í öðrum löndum? Það er mér ómögulegt að skilja, herra forseti, og ég endurtek að það verða að vera starfsskilyrði hér á landi fyrir þessi fyrirtæki sem þola alþjóðlegan samanburð við alþjóðlega samkeppni. Annars verður ekkert úr þessari uppbyggingu.