2002-04-09 22:13:48# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:13]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hafi hæstv. utanrrh. haldið að ég mundi kikna í hnjáliðunum af því að hann nefndi Evrópusambandið gerist það ekki, og það skiptir mig engu þótt búið sé að undanskilja stóriðjuna í einhverjum drögum að tilskipun sem er væntanleg frá Evrópusambandinu einhvern tímann í nánustu framtíð. Það er alveg jafnslæmt.

Mig langar líka, herra forseti, til að benda á að það er hægt að fjárfesta í fleiru en stóriðju. Það vill þannig til að erlendir fjárfestar hafa áhuga á fleiru en stóriðju. Það eru hins vegar íslensk stjórnvöld sem hafa bara áhuga á stóriðju og halda að allir aðrir vilji bara fjárfesta á Íslandi í stóriðju. Það er hinn mikli misskilningur í þessu máli, herra forseti.

Auðvitað vefst það líka fyrir íslenskum stjórnvöldum að það er ekki mjög fýsilegt að fjárfesta á krónusvæði. Líklega er það þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Þess vegna þarf að grípa til alls kyns aðgerða til að laða hingað erlenda fjárfesta sem létu sér ekki detta í hug, því miður, að fjárfesta hér á landi nema ókeypis losunarkvótar fylgdu með í kaupunum á silfurfati, að ekki sé talað um það annað sem fylgir í náttúruspjöllum og öðru ef við erum að tala um stóriðju, virkjanir og álver. Þetta verður allt að hanga saman, herra forseti.

Það breytir því ekki að auðlindapólitíkin er ekki til, hún liggur ekki til grundvallar. Þess vegna er í raun aldrei hægt að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að fara með þessi verðmæti, hvort sem þau heita kvótar í sjávarútvegi eða umhverfismengunarkvótar, meðan sú pólitík er ekki fyrir hendi, herra forseti.