Virðisaukaskattur

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 22:37:47 (7396)

2002-04-09 22:37:47# 127. lþ. 115.35 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, Frsm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:37]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. við frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt. Nefndin hefur fjallað um málið, sent það til umsagnar og farið yfir það.

Markmið frv. er að gera smávægilegar breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem flestar snúast um framkvæmdaatriði. Það veigamesta snýr að endurgreiðslum á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðarhúsnæði. Málið snýst um að þessar endurgreiðslur geti komið hraðar en nú hefur verið.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frv. sem snúast fyrst og fremst um að gera þessa endurgreiðslu hægari fyrir þá sem þurfa að taka við þessum peningum, m.a. að bætt verði inn ákvæði um hámarkstíma sem skattstjóri hefur til þess að afgreiða slík erindi.

Síðan eru lagðar til breytingar á tollskrárnúmerum sem snúast um leiðréttingar.

Þetta eru í stórum dráttum þær brtt. sem nefndin gerir tillögu um. Undir álitið skrifar öll efh.- og viðskn.