Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 22:57:31 (7401)

2002-04-09 22:57:31# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:57]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um Steinullarverksmiðjuna er hálfdapurlegt. Það er dapurleg staðreynd að frv. af þessum toga sé komið hér inn á Alþingi.

Þannig var með Steinullarverksmiðjuna á sínum tíma að tekist var á um stofnsetningu hennar og staðsetningu. Urðu miklar deilur um það og sjálfsagt pólitísk refskák á þeim tíma. Það var m.a. tekist á um hvort hún skyldi byggð hér á Suðurlandi eða á Sauðárkróki. Fyrir beinan pólitískan atbeina á sínum tíma var ákveðið að Steinullarverksmiðjan skyldi byggð á Sauðárkróki. En það var alls ekki einfalt mál og um þetta voru miklar deilur.

Steinullarverksmiðjan hefur reynst mikill happafengur fyrir Sauðárkrók og fyrir Skagafjörð. Þó að nokkrir byrjunarörðugleikar hafi verið við rekstur hennar þá gekk reksturinn afar vel þegar á leið og hefur hún skilað góðum arði til eigenda sinna. Hún hefur skilað öruggu starfi til þeirra starfsmanna sem þar eru og drjúgum tekjum til sveitarfélagsins, bæði í hinum ýmsu gjöldum og fasteignagjöldum.

Fjárhagur hennar er afar góður. Á fyrirtækinu hvíla litlar skuldir þannig að hún er í sjálfu sér í mjög góðu lagi. Þetta fyrirtæki er í góðu lagi og er í góðum rekstri. Það skaffar örugga og góða atvinnu fyrir byggðarlagið og skapar byggðarlaginu tekjur.

[23:00]

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka þetta fram í upphafi. Hæstv. ráðherra sagði að stjórnvöld hefðu ekki haft beinan atbeina að þessu máli. Það má segja að þau hafi haft hann óbeinan með stefnu sinni gagnvart sveitarfélögunum vegna þess að þau hafa ekki haft tekjustofna til að standa undir nauðsynlegum verkefnum sem þeim hafa verið falin. Við ræddum fyrr í dag um félagslega íbúðakerfið sem hefur verið sveitarfélögum mjög þungt sem og ýmis annar rekstur.

Eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. fyrr í dag hefur einmitt fjárhagur sveitarfélagsins Skagafjarðar verið mjög þungur á undanförnum missirum og hefur þess verið krafist af sveitarfélaginu að það bæti fjárhag sinn og fjárhagsstöðu. Hefur eftirlitsnefnd með fjárhag sveitarfélaganna hjá félmrn. krafist þess að sveitarfélagið bætti fjárhag sinn.

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur orðið að beygja sig undir þessar kröfur og þetta ástand sem stjórnvöld hafa skapað í umgjörð sveitarfélaganna. Í fyrra var sveitarfélagið í Skagafirði knúið til að selja Rafveitu Sauðárkróks, félag sem hafði skilað sveitarfélaginu drjúgum tekjum og auk þess staðið undir og veitt margháttaða þjónustu sem kom sveitarfélaginu til góða. Sveitarfélagið var samt knúið til að selja þessa rafveitu sína, og það var meira að segja gert þannig að ríkið veitti fjármagn til Rariks til að kaupa rafveituna. Það hefði þá verið alveg eins gott og miklu eðlilegra, eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálslynda flokksins lögðu reyndar til, að þessir fjármunir hefðu farið beint til sveitarfélagsins Skagafjarðar en ekki í gegnum Rarik þannig að Rarik fengi peninga frá ríkinu til að yfirtaka Rafveitu Sauðárkróks.

Svona hefur þetta gengið og nú er komið að því að knýja sveitarfélagið til að selja Steinullarverksmiðjuna. Ég segi ,,knýja`` vegna þess að það hefur verið knúið á af hálfu stjórnvalda um að sveitarfélagið rétti fjárhag sinn og það hefur ekki fundið aðrar leiðir en að selja eignir. Hafi afgreiðsla um sölu á Rafveitu Sauðárkróks verið umdeild í héraðinu er salan á Steinullarverksmiðjunni enn umdeildari þannig að sá gjörningur sem hér er verið að mæla fyrir er mjög umdeildur heima í héraði og mikil ósátt um framkvæmd hans. Þetta vil ég að komi fram þannig að það sé alveg ljóst.

Víkjum þá að öðrum framgangsatriðum hér. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra á ríkissjóður um 30% af hlutafé, að mig minnir, í fyrirtækinu. Til þess að mega selja hluti sem þessa, hluti ríkisins, þarf samkvæmt lögum að vera til þess heimild á fjárlögum. Svo er ekki, það er engin heimild á fjárlögum fyrir ríkið til að selja þennan hlut sinn þannig að þó að verið sé að flytja hér einhver sérlög um Steinullarverksmiðjuna vegna þess að um hana gilda sérlög --- það er í raun og veru verið að leggja til breytingu á sérlögum sem gilda um Steinullarverksmiðjuna --- þarf engu að síður að vera heimild á fjárlögum til að ríkið megi selja sinn hlut. Þá heimild skortir þannig að hér er þá ekki, virðulegi forseti, um löglegan gerning að ræða hvað þetta varðar.

Í öðru lagi er ríkinu jafnframt skylt, með svo stóran eignarhlut í slíku fyrirtæki, hlutabréf sín, að bjóða hann til sölu á almennum markaði og leita þar hæstu tilboða. Það hefur ekki verið gert heldur er bara gengið til samninga við einn aðila um sölu á hlutabréfunum. Þetta lagaákvæði sem lýtur að meðferð á eignum ríkisins og sölu þeirra er því heldur ekki í heiðri haft. Allur framgangsmáti hér af hálfu ríkisins er á svig við lög.

Þá er rétt að geta þess jafnframt, sem hæstv. iðnrh. kom reyndar inn á í framsögu sinni, að fyrirvari er m.a. um að samkeppnisyfirvöld banni ekki kaupin eða setji um þau efnisleg skilyrði. Nú hefur Samkeppnisstofnun óskað eftir öllum gögnum sem lúta að sölu þessa fyrirtækis. Verði af sölunni fer þessi framleiðsla nánast á einokunarhendur þannig að þeir aðilar sem munu vilja kaupa einangrunarefni sem þessi verksmiðja framleiðir verða ofurseldir hreinni einokun á markaðnum. Samkeppnisstofnun hefur einmitt óskað eftir öllum upplýsingum um þetta og áskilið sér tíma til að kanna og fjalla um. Það er því algjörlega ótímabært, herra forseti, að leggja fram frv. um sölu á Steinullarverksmiðjunni núna þótt ekki ekki komi annað til en þetta. Eigum við að láta það yfir okkur ganga að Alþingi afgreiði lög með fyrirvara því að þau snúast um þær eignabreytingar á Steinullarverksmiðjunni sem hér er verið að fjalla um? Ætlast þá hæstv. ráðherra til þess að þessi lög verði afgreidd með fyrirvara um að Samkeppnisstofnun samþykki gerninginn? Það eru nefnilega litlar líkur á því að Samkeppnisstofnun verði búin að afgreiða málið fyrir sitt leyti áður en þingi lýkur í vor. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðherra: Er það hugmynd ráðherrans að þetta verði afgreitt með fyrirvara?

Auk þess, eins og ég segi, virðist þessum gerningi með einhverjum hætti vera þvingað inn á sveitarfélagið. Fjárhagsstaða Steinullarverksmiðjunnar er sterk, og eins og kaupsamningur er hér lagður upp munu kaupendur ekki þurfa að leggja fram neina fjármuni, þeir geta sótt þá inn í fyrirtækið því það er eignalega svo vel sett. Nýir eigendur geta einfaldlega sótt fé inn í fyrirtækið til að greiða það út. Hefði í sjálfu sér verið nær hjá sveitarfélaginu Skagafirði að styrkja fjárhag sinn með því hreinlega að finna aðrar leiðir, láta t.d. bara Steinullarverksmiðjuna kaupa hlut í sjálfri sér og láta eigendurna fá fé með þeim hætti. Miklu nær hefði verið að kanna þær leiðir.

Nei, herra forseti, það er eitthvað mjög kyndugt hér á ferð, einhver kyndugur bakgrunnur varðandi allan þennan kaupskap.

Þá er og vert að geta hins sérkennilega ferlis að án þess að vera búið að ganga frá kaupum eða sölu á þessu fyrirtæki er hæstv. iðnrh. á fundum í Skagafirði, í blaðaviðtölum og útvarpsviðtölum, farin að útdeila þessu fé, farin að útdeila því fé sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður fái fyrir söluna, t.d. 100 millj. kr. í Þverárfjallsveg. Þverárfjallsveg á að fjármagna í fyrsta lagi á allt annan hátt, og á vegáætlun, en samt er hæstv. ráðherra farin að deila út þessum fjármunum.

Verði af þessari sölu sem ég tel alls ekki víst, og tel reyndar óheppilegt ef af verður, renna þeir fjármunir í sjálfu sér inn í ríkissjóð. Hæstv. iðnrh. hefur ekkert umboð til að deila út fé eins og ráðherrann hefur verið að gera og ég get vitnað í viðtöl við ráðherrann þar sem hún ýjar að því með hvaða hætti fjármagninu verði skipt. Það er við afgreiðslu fjárlaga sem það er ákveðið og er alveg hreint makalaust þegar ráðherrar fara umboðslaust upp á sitt eindæmi að lofa peningum í þetta og hitt.

Herra forseti. Þetta ferli allt er með endemum enda heyrði ég einmitt hjá ákveðnum aðilum í Skagafirði að þarna væri verið að útvega fé í kosningasjóð Framsfl. fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar og að hæstv. ráðherra hefði verið að reyna að útdeila þangað fé. Það eru ekki mín orð en ég heyrði þau sögð. Þessi umgerð öll á sölu þessarar verksmiðju er alveg með endemum enda er hugmyndin mjög umdeild heima í héraði.

Virðulegi forseti. Það er ekki sjálfgefið að halda verksmiðjum og atvinnufyrirtækjum sem þessum gangandi úti á landi. Með stefnu ríkisstjórnarinnar, t.d. í samgöngu- og flutningamálum, er flutningskostnaður á framleiðsluvöru verksmiðjunnar orðinn verulega hár og íþyngjandi því að það verður að segjast eins og er að markaðurinn fyrir vöru þessarar verksmiðju er náttúrlega fyrst og fremst á suðvesturhorninu. Sömuleiðis verður að flytja stóran hluta af hráefninu af suðvesturhorninu til verksmiðjunnar. Vegna stefnu stjórnvalda hvað varðar flutningsmál hafa þessir þættir einmitt verið stórlega að þyngjast síðustu missiri, og hafa vissulega gert það að verkum að rekstur verksmiðjunnar sem slíkrar er ekki eins öruggur og góður og áður. Það er því verið að taka verulega áhættu í rekstri hennar með því að breyta eignarhluta á henni að ástæðulausu, og að færa eignarhluta hennar til stórfyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu sem væri í lófa lagið að sækja fjármagn inn í þessa verksmiðju og gera síðan svo háar arðsemiskröfur til hennar að hún eigi mjög erfitt með að standa undir þeim kröfum og reikna hana þannig óhagkvæma. Þetta er bara reikningsdæmi.

Það er því mjög slæm aðgerð finnst mér, virðulegi forseti, að hrófla við stöðu þessa ágæta fyrirtækis, þessa örugga atvinnufyrirtækis í héraðinu. Ríkið átti mjög góðan hlut að þegar þetta fyrirtæki var stofnað, það var að sönnu umdeilt, og þetta fyrirtæki er gott fyrirtæki þar sem það er og í því eignarhaldi og því rekstrarformi sem er á því. Mikilvæg eignaraðild að þessu fyrirtæki er einmitt eignaraðild þessara finnsku aðila sem eiga það. Síðast þegar ég vissi var ekki ljóst hvort þeir mundu halda áfram hlut sínum í verksmiðjunni við fyrirhugaða eignabreytingu. Það var a.m.k. ekki í hendi og þeir eru, að ég best veit, ekki endanlega búnir að gera upp við sig hvort þeir muni verða áfram eignaraðilar eða ekki, og þá hversu stórir. Það eru þarna margir þættir sem er verið að setja í óvissu. Það er verið að tala um að starfsmenn og einhverjir aðrir óskilgreindir aðilar eigi að koma inn sem eignaraðilar. Það mál er hins vegar algerlega ókannað. Fjölmörg grundvallaratriði sem þessi verksmiðja og starfsemi hennar byggir grundvöll sinn á er verið er að setja í uppnám með þeim aðgerðum sem hæstv. iðnrh. boðar.

Virðulegi forseti. Til viðbótar vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort fjáraukalög séu væntanleg samtímis þessum aðgerðum sem leggja til að þessi sala á ríkisbréfunum verði heimiluð. Í öðru lagi vil ég ítrekað spyrja: Telur hæstv. ráðherra að farið hafi verið að lögum varðandi ríkishlutina þegar samið var um sölu þeirra án þess að leitað væri hæstu tilboða? Telur hæstv. ráðherra vera löglega staðið að þessu? Mitt mat er að svo sé ekki. Ég vil að endingu vekja athygli á því samkomulagi sem hæstv. ráðherra las upp, t.d. ,,... að kaupandi gefi skriflega yfirlýsingu um þá ætlun sína að halda áfram rekstri félagsins á Sauðárkróki ...`` Hvers virði er svona barnaleg yfirlýsing? Það getur enginn staðið við svona. Hvernig var með þessar yfirlýsingar þegar verið var að selja suður fyrirtækin á Akureyri? Hvað stendur mikið eftir af þeim loforðum? Svona barnaleg yfirlýsing eins og þarna á í hlut er náttúrlega afar lítils virði enda er engin leið að krefja aðilana um að standa við hana á nokkurn hátt. Hvernig ætti að gera það? Hvernig á að krefja kaupendur um að standa við það að halda rekstri félagsins eða fyrirtækisins áfram á Sauðárkróki eftir að þeim hefur t.d. tekist að gera rekstur hennar óhagkvæman þar?

Virðulegi forseti. Það er dapurt hvernig ríkið vill leysa fjárhag sveitarfélaganna og dapurlegt hvernig það ætlar að koma inn í og veikja atvinnugrundvöll fyrirtækja úti um land.