Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 23:59:26 (7409)

2002-04-09 23:59:26# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[23:59]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fá það alveg skýrt hjá hæstv. ráðherra hvort hún telji að ekki þurfi sérstaka fjárlagaheimild til að selja bréf ríkissjóðs, hvort það sé mat ráðherrans að þess þurfi ekki.

Í öðru lagi vil ég fá að heyra líka hvort ráðherrann telji að það sé í fyllilega í samræmi við lög og reglur um sölu á hlutabréfum í eigu ríkisins eins og þarna er staðið að verki. Þau eru ekki boðin föl til kaups á markaði eða leitað annarra tilboða. Telur ráðherrann að þarna sé rétt staðið að? Já eða nei.

Í þriðja lagi að upplýsa það hvort umræða hæstv. ráðherra um að hluti af söluandvirði verksmiðjunnar af ríkisins hálfu ætti að fara í veginn yfir Þverárfjall, hvort það sé ástæða þess að ekkert fjármagn eða mjög takmarkað fjármagn er sett í veginn um Þverárfjall á vegáætlun. Umræða var um það og ósk um það að Þverárfjall yrði tekið í flokk stórverkefna og varið til þess ákveðnu fjármagni en er þetta kannski ástæða þess að ekki þykir ástæða til að láta sérstakt fjármagn á vegáætlun til Þverárfjalls vegna þess að hæstv. iðnrh. er búin að lofa því að fé komi frá sölu á verksmiðjunni til þess? Ja, þá er svolítið kynduglega að verki staðið, virðulegi forseti.